09. mar. 2018

Jafnréttisþing 2018

Útvíkkun jafnréttisstarfs – #metoo og margbreytileiki var að þessu sinni yfirskrift Jafnréttisþings. Þema þess var um jafna meðferð og vernd gegn mismunun í víðum skilningi með hliðsjón af margbreytileika í íslensku samfélagi. Stóð þingið í hálfan annan dag og bauð upp á sex málstofur um fjölbreytt efni.

Jafnframt var á þinginu fjallað um stöðu kvenna og karla á opinberum vettvangi og vinnumarkaði, kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð,  samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun, kynbundna hatursorðræðu og hótanir sem og áhrif #metoo-byltingarinnar á möguleika kvenna til jafnra valda og áhrifa í íslensku samfélagi. Þá voru kynntar niðurstöður nýrra rannsókna á kyngreindu innihaldi fjölmiðla og launamun karla og kvenna.

Þingið var að þessu sinni haldið í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands og aðgerðahóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti.

Aðalfyrirlesari var Dr. Faisal Bhabha, dósent í lögum við kanadíska lagaháskólann Osgoode Hall Law School, sem fjallaði í erindi sínu samfélag án mismununar út frá kanadísku sjónarhorni, en árangurinn sem Kanadamenn hafa náð á því sviði þykir allrar athygli verður (e. Building a society free from discrimination: the Canadian perspective). 

Félags- og jafnréttismálaráðherra hóf jafnréttisþingið á framlagningu skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála 2015–2017. Í þeim hluta skýrslunnar sem snýr að sveitarfélögum kemur m.a. fram að 73% sveitarfélaga höfðu skilað umbeðnum gögnum, þegar innköllun Jafnréttisstofu á jafnréttisáætlunum lauk í júlí 2016.

Hlutfallið var hæst hjá stærstu sveitarfélögunum, eða 100%, en lægst hjá þeim minnstu er 59,5%. Hjá meðalstórum sveitarfélögunum með 1.00 til 9.999 íbúa er hlutfallið 88,5%.

Enn fremur er sagt frá málþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Jafnréttisráðs og Jafnréttisstofu um jafnrétti í sveitarfélögum, útgefnu fræðsluefni hjá sambandinu um jafnréttisstarf á sveitarstjórnarstigi og samkomulag sveitarfélaga og lögreglu á grundvelli Suðunesjaverkefnisins Höldum glugganum opnum – svo að dæmi séu tekin.

Nálgast má, ásamt skýrslu jafnréttismálaráherra, dagskrá og upptökur af þinginu hér að neðan.