05. des. 2016

Jafnréttismál á Sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins

Ályktanir Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins á haustþingi 2016 um þátttöku kvenna í sveitar- og svæðastjórnum og kynjaða fjárhagsáætlunargerð:

Í ályktun Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins á haustþingi 2016 um þátttöku kvenna eru sveitar- og svæðisstjórnir hvattar til að tryggja að hlutfall kvenna í öllum ákvörðunartökuferlum fari ekki undir 40%, og beita sér fyrir að þróaðar verði kyngreindar tölulegar upplýsingar til að fylgjast með tilnefningum til embætta og í kosningum. Sveitar- og svæðastjórnir eru líka hvattar til að innleiða kynjaða fjárhagsáætlun og að undirrita og innleiða Evrópusáttmála CEMR um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum, sjá http://www.samband.is/verkefnin/lydraedis--og-mannrettindamal/jafnrettismal/evropski-jafnrettissattmalinn/.

Skýrsla, sem var til umfjöllunar með ályktuninni, gefur yfirsýn yfir samþykktir og aðgerðir innan Evrópuráðsins og fleiri alþjóðastofnana til að jafna þátttöku kynjanna, og hvernig þróunin hefur verið. Í ályktuninni eru ríkisstjórnir hvattar til að styðja sveitar- og svæðisstjórnir í þessum efnum og skoða lagasetningu til að koma á kynjakvóta fyrir kosningaframbjóðendur og endurskoða kosningakerfi sem hafa haft neikvæð áhrif á stjórnmálaþátttöku kvenna. Síðasttöldu atriðin tvö eru í samræmi við ályktun Evrópuráðsþingsins frá 2010 og Feneyjanefnd Evrópuráðsins sem hefur gefið út að lagareglur, sem kveða á um lágmarks hlutfall hvors kyns meðal frambjóðenda, séu ekki andstæðar reglum um jafnan kosningarétt ef þær hafa stoð í stjórnarskrá viðkomandi ríkis. Í greinargerð með ályktuninni og tilmælunum kemur fram að kynjakvótar séu eitt af áhrifamestu tækjunum til að auka stjórnmálaþátttöku kvenna. Gefið er yfirlit yfir mismunandi kynjakvótareglur og kosti og galla þeirra. Þróunin eftir að Sveitarstjórnarþingið innleiddi 2008 kynjakvóta fyrir sendinefndir aðildarríkja er rakin. 1994 voru karlmenn 84,19% af fulltrúum á þinginu, 65,09% 2011 og 56,92% 2014.

Í skýrslunni eru birtar tölulegar upplýsingar um þátttöku kvenna og karla í sveitar- og svæðastjórnum. Aðeins Svíþjóð og Ísland hafa náð 40% markmiðinu fyrir þátttöku kvenna í sveitarstjórnum. Ísland er meðal þeirra landa þar sem konum í sveitarstjórnum hefur fjölgað mest, frá 31% 2005 í 44% 2015. Ekkert ríki nær 40% markmiðinu þegar litið er til bæjarstjóraembætta en Svíþjóð er með hæsta hlutfall kvenbæjarstjóra 37%. Ísland kemur þar á eftir með 26%. Talan fyrir Ísland var 19% árið 2005.

Skýrslan er aðgengileg hér http://www.coe.int/t/congress/sessions/31/NewsSearch/default_en.asp?p=nwz&id=8013&lmLangue=1

Í ályktun um kynjaða fjárhagsáætlunargerð  kemur fram að kynjuð fjárhagsáætlanagerð hafi reynst vera eitt öflugasta verkfærið til að samþætta kynjasjónarmið og tryggja að opinber þjónusta taki mið af þörfum beggja kynja. Því er beint til sveitarfélagasambanda að hvetja ríkisvaldið til að veita fjármagni til innleiðingar á kynjaðri fjárhagsáætlun á sveitarstjórnarstigi, aðstoða við þekkingaruppbyggingu og sjá til þess að opinberar tölur séu kyngreindar. Sveitar- og svæðastjórnir eru hvattar til að innleiða kynjaða fjárhagsáætlunargerð í árlegum fjárhagsáætlunum sínum og að skiptast á reynslu og sjónarmiðum við sveitarfélög og borgir sem eru komnar lengra á veg. Því  er líka beint til þeirra að hafa samráð og tryggja þátttöku borgaralegra samtaka í þessum ferlum. Í greinargerð með ályktuninni er gefið yfirlit yfir hvernig hugmyndir um kynjaða fjárhagsáætlunargerð hafa þróast og hvernig Evrópuráðið hefur verið leiðandi í þeirri þróun. Það er leitast við að svara spurningunni: „Hvað er kynjuð fjárhagsáætlunargerð“, gerð er grein fyrir ávinningi af henni og áskorunum og leitast við að leiðrétta algengan misskilning um kynjaða fjárhagsáætlunargerð. Loks er gerð grein fyrir reynslu landa og borga af kynjaðri fjárhagsáætlunargerð, þ. á m. Reykjavíkurborgar. Á myndinni sést Björn Blöndal segja frá reynslu Reykjavíkurborgar af kynjaðri fjárhagsáætlunargerð.

Efropuradid

Ályktunin er aðgengileg hér
http://www.coe.int/t/congress/sessions/31/NewsSearch/default_en.asp?p=nwz&id=8008&lmLangue=1