30. mar. 2020

Íbúasamráðsvinnustofu breytt í fjarfund vegna Covid-19

Samband íslenskra sveitarfélaga og Akureyrarbær fengu í lok ársins 2018 styrk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að fara í reynsluverkefni um íbúasamráð. Verkefnið felst í því að fjögur sveitarfélög, þ.e. auk Akureyrarbæjar, Kópavogsbær, Stykkishólmsbær og Norðurþing, fá stuðning til að framkvæma íbúasamráð í samræmi við handbók sambandsins um íbúasamráð í sveitarfélögum.

Markmiðið er að afla reynslu sem getur nýst sveitarfélögum almennt í framhaldinu. Íbúasamráðsérfræðingar frá sænska sveitarfélagasambandinu og ráðgjafarfyrirtækinu Alta hafa veitt sveitarfélögunum stuðning til að skipuleggja og samþætta íbúasamráð inn í ákvörðunarferla varðandi innleiðingu Barnasáttmálans, uppbyggingu íþróttamannvirkja, almenningssamgangna og grænna svæða.

Til stóð að halda þriðju og síðustu vinnustofu verkefnisins í Stykkishólmi 27. mars sl. en útbreiðsla Covid -19 kórónaveirunnar hefur komið í veg fyrir það. Í staðinn var haldinn fjarfundur þennan dag með 20 þátttakendum frá öllum sveitarfélögunum, sérfræðingum Alta og þeim sænsku. Flestir þátttakendur tóku þátt heiman frá sér og fjarfundaformið sannaði enn gildi sitt því allt gekk snurðulaust og þátttakendur áttu einkar góðar samræður um reynsluna og lærdóminn af verkefninu. Flest var það á mjög jákvæðum nótum og aðspurð um hvað hefði komið þeim á óvart þá var það helst hversu áhugasamt fólk hafi verið að taka þátt.

Stefnt er að því að halda opið málþing fyrir sveitarfélög um reynsluverkefnin í nóvember nk. þar sem sænsku sérfræðingarnar muni jafnframt kynna hvernig hægt er að gera íbúasamráð að föstum þætti í stjórnun sveitarfélaga.