20. des. 2019

Haustþing sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins 2019

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins, kemur saman tvisvar á ári að vori og hausti. Yfirskrift haustþingsins 2019 var „Bæjarstjórar standa vörð um lýðræðið“. Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi og Bjarni Jónsson fulltrúi í sveitarstjórn Skagafjarðar tóku þátt í haustþinginu, ásamt æskulýðsfulltrúanum Lilju Hrund Lúðvíksdóttur, varabæjarfulltrúa í Garðabæ, og Önnu G. Björnsdóttur ritara íslensku sendinefndarinnar. Á þinginu voru samþykktar uppfærðar leiðbeiningar um þátttöku íbúa í ákvörðunartökuferlum, sem eiga fullt erindi við íslensk sveitarfélög.

Tilefni er líka til að vekja athygli á umræðum um tvö efni, sem þingið á án efa eftir fjalla nánar um á næstu þingum, þar sem þau brenna á evrópskum sveitarfélögum, þ.e. um sífellt meira krefjandi starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og snjallborgatækifæri og -áskoranir. Þá voru á þinginu afgreiddar hefðbundnar skýrslur um framkvæmd kosninga í aðildarríkjum og stöðu sveitarstjórnarstigsins í þeim gagnvart Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Þar bar hæst skýrslu um umdeildar sveitarstjórnarkosningar í Tyrklandi og skýrslu um stöðu sveitarstjórnarstigsins í Rússlandi. Nánari upplýsingar í minnisblaði ritara og á heimasíðu þingsins.