05. des. 2016

Barátta gegn öfgahyggju

Ályktun Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins á haustþingi 2016 um aðgerðir til að berjast gegn öfgahyggju meðal íbúa og stuðningsvefsíða fyrir sveitarfélög:

Í ályktuninni er rakið hvernig þingið ætli sér að fylgja eftir stefnumótun sinni frá 2015 um aðgerðir til að berjast gegn öfgahyggju í grasrótinni. Í ályktuninni er lagt til að fyrri ályktanir þingsins um þátttöku íbúa, samræðu á milli trúar- og menningarhópa, félagslega aðlögun og samlögun og um að búa í fjölmenningu, verði yfirfarnar út frá áherslu á að búseta í Evrópu krefjist þess að fólk hafi þekkingu á undirstöðum lýðræðis.  Samkvæmt skýrslunni lýsir þingið því yfir að það muni vinna á heildstæðan hátt að því að til verði samfélög fyrir alla sem virði fjölbreytileikann og mismunandi menningarbakgrunn. Það muni einnig þróa hugtakið „interconvictional dialogue“ eða lífsskoðunarsamtal sem er víðara en samtal á milli trúarhópa. Það sem liggur að baki því er að það þurfi líka að greiða fyrir samtölum til að auka skilning á lífsskoðun sem felur í sér að taka ekki afstöðu til trúarsetninga. Í skýrslunni eru sveitar- og svæðisstjórnir hvattar til að stuðla að og styðja við samtöl og viðburði á milli menningar- og trúarhópa og nýta sér þau stuðningsverkfæri sem þingið hefur þróað, sérstaklega vefsíðuna http://www.congress-intercultural.eu/en/,  en þar er m.a. að finna stuðningsefni á íslensku og videó sem gefur gott yfirlit yfir stuðningsefnið.

Sveitar- og svæðisstjórnir eru líka hvattar til að gerast meðlimir í samtökum evrópskra borga gegn ofbeldissinnaðri öfgahyggju og skiptast á þekkingu og reynslu bæði á pólitískum vettvangi og innan stjórnsýslunnar.

Ályktunin er aðgengileg hér
http://www.coe.int/t/congress/sessions/31/NewsSearch/default_en.asp?p=nwz&id=7997&lmLangue=1