Loftslagsáætlanir sveitarfélaga í brennidepli

Fulltrúar sveitarfélaga ræddu loftslagsáætlanir sveitarfélaga á fjölmennum fundi í Garðabæ þann 22. nóvember sl. Þar voru saman komnir tengiliðir sveitarfélaga sem taka þátt í Samstarfsvettvangi um loftslagsmál og heimsmarkmiðin. Fundinum var streymt og var um fjórðungur fundarmanna í fjarfundi.

Fulltrúar sveitarfélaga ræddu loftslagsáætlanir sveitarfélaga á fjölmennum fundi í Garðabæ þann 22. nóvember sl. Þar voru saman komnir tengiliðir sveitarfélaga sem taka þátt í Samstarfsvettvangi um loftslagsmál og heimsmarkmiðin. Fundinum var streymt og var um fjórðungur fundarmanna í fjarfundi. Alls hafa 45 sveitarfélög lýst yfir þátttöku í samstarfsvettvangnum og enn eru að berast yfirlýsingar um þátttöku. Lögð verður áherslu á að fá sem flest sveitarfélög inn fyrir áramót og í upphafi árs 2020 verði vettvangurinn skipaður þeim sveitarfélögum sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri GarðabæjarYfirskrift fundarins var Loftslagsáætlanir frá sjónarhorni sveitarfélaga en með breytingu á lögum um loftslagsmál í júní sl. er sveitarfélögum skylt að vinna loftslagsstefnu fyrir lok árs 2021. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, opnaði fundinn þar sem Garðabær var gestgjafi tengiliðafundarins að þessu sinni. Erindi voru frá forsætisráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun.

Innihald loftslagsáætlana sveitarfélaga

Fulltrúi Umhverfisstofnunnar sagði frá því að loftslagsstefnur sveitarfélaga þurfi að innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð. Umhverfisstofnun er ætlað það hlutverk að styðja sveitarfélögin við gerð loftslagsstefnunnar og hafa eftirlit með að sveitarfélög vinni slíka stefnu. Með hliðsjón af ráðgjafahlutverkinu hefur stofnunin hug á nýta sér verkefni sem er í gangi hjá ríkinu og kallast Græn skref í ríkisrekstri en fyrirmynd af verkefninu kemur frá Reykjavíkurborg.

Væntingar um aukið samstarf

Fundinum lauk með vinnustofu um loftslagsáætlanir sveitarfélaga þar sem horft var til þeirra væntinga sem þátttakendur hafa til þeirra. Fjórir vinnuhópar tóku þátt í salnum og einn fundaði í gegnum Skype. Í lok fundarins kynntu þeir helstu niðurstöðu sínar. Það mátti heyra ákveðin samhljóm í öllum hópum varðandi mikilvægi þess að auka samstarf milli sveitarfélaga um gerð og innleiðingu loftslagsáætlana og að innbyrðis samkeppni milli sveitarfélaga verði lögð til hliðar.

Einnig var aukið samstarf við ríkið nefnt og mikilvægi þess að skapa skilning og víðtæka þátttöku íbúa, fyrirtækja og annarra haghafa í loftslagsmálum og að loftslagsáætlanir tengist stað- og svæðisbundnum áætlunum. Flestir hóparnir nefndu að markmið og aðgerðir í loftslagsmálum þyrftu að vera skýr, tímasett, raunhæf og mælanleg. Auk þess kom fram að nauðsynlegt væri að losunarbókhald lægi til grundvalar loftslagsáætlunum og að það væri unnið með sambærilegum hætti í sveitarfélögum. Áhugi var á að heimfæra Græn skref yfir á sveitarfélög og ítrekað var mikilvægi aðalskipulags við innleiðingu loftslagsaðgerða.