Loftslags- og orkumál sett á oddinn á fundi hagsmunasamtaka sveitarfélaga í Prag

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Margrét Sanders, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og stjórnarmaður í sambandinu, sóttu fund pólitískrar stefnumótunarnefndar hagsmunasamtaka sveitarfélaga í Evrópu – CEMR í Prag dagana 6.-7. desember. Á fundinum var áhersla á lofslags- og orkumál og kolefnishlutleysi Evrópu árið 2050, en fundurinn fór fram á sama tíma og lofslagsráðstefna Sameinuðu Þjóðanna (COP28) var haldin í Dubai.

Á fundinum var samþykkt svokölluð Prag yfirlýsing, en í henni er Evrópusambandið (ESB) hvatt til þess að tryggja aðkomu sveitarsjórnarstigsins að stefnumótun og ákvörðunartöku ESB, ásamt því að minna á að stefnumótun ESB þarf að fylgja fjármagn til sveitarstjórnarstigsins.

Sambandið óskaði eftir því að Prag yfirlýsingin næði ekki eingöngu til aðiladarríkja Evrópusambandsins, heldur næði hún einnig til evrópska efnahagsvæðisins. Enda séu sveitarfélög frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi um margt í sömu stöðu þegar kemur að innleiðingu ESB löggjafar og sveitarfélög innan ESB.

Loftslagsmál og lýðræði í Evrópu

Loftslagsmál og græn og snjöll Evrópa eru hornsteinar vinnu Evrópusambandsins um þessar mundir og er stefnt að því að Evrópa verði fyrsta kolefnishlutlausa heimsálfan árið 2050. Evrópsk sveitarfélög styðja þessi metnaðarfullu markmið, en hafa á sama tíma áhyggjur af því að ákveðin landsvæði, viðkvæmir samfélagshópar og einstaklingar geti komið illa út úr þessari grænu byltingu.

Í þessari umræðu lagði sambandið áherslu á að kolefnishlutleysi verði ekki náð án markvissrar þátttöku sveitarfélaga. Þá benti sambandið á að ef tryggja eigi markvissa þátttöku sveitarfélaga, þá verði jafnframt að tryggja þeim það fjármagn sem til þarf. Ljóst sé að kolefnishlutleysi muni kalla á gríðarlega fjárfestingu í innviðum sveitarfélaga. Sambandið hvatti því til þess að evrópsk sveitarfélög beiti sér fyrir því að samstarfssjóðir Evrópusambandsins séu nýttir í þessum tilgangi.

Þá benti sambandið á að enn sem komið er sé Ísland að mestu leyti stéttlaust samfélag, en að það séu – líkt og annars staðar í Evrópu – blikur á lofti í því tilliti. Staða efnahagsmála, aukinn fjöldi flóttafólks og að nú bætist við mikil þörf á fjárfestingum í tengslum við kolefnishluteysi, séu hins vegar allt þættir sem geti leitt af sér aukna misskiptingu. Hér gegni sveitarfélög einnig mikilvægu hlutverki.

Orka til framtíðar

Á fundinum var einnig til umræðu með hvaða hætti megi tryggja loftslagsvæna orku í Evrópu. Sambandið benti á að staðan á Íslandi sé allt önnur en víðast annars staðar í álfunni. Hins vegar deilum við markmiðum annarra Evrópuríkja um að hætta notkun jarðefnaeldsneytis.

Ísland, líkt og aðrar þjóðir, bíði eftir tækniframförum sem munu gera okkur kleift að hætta notkun jarðefnaeldsneytis fyrir flugvélar og fiskiskip. Aftur á móti gangi orkuskipti í vegasamgöngum vel á Íslandi.

Orkuskipti í vegasamgöngum kalla á töluverða innviðauppbyggingu. Í tilviki ríkja eins og Íslands, sem eru bæði fámenn og strjálbýl getur hins vegar reynst erfitt að tryggja hæfilega uppbyggingu innviða og án þess að það leiði til offjárfestingar.Sambandið hvatti því til þess að samstarfssjóðir Evrópusambandisins, t.d. LIFE og Digital Europe, verði nýttir í orkuskiptaverkefni og að þátttaka sveitarfélaga í slíkum verkefnum verði tryggð.

Í þessu sambandi var bent á að Eimur, í samstarfi við Íslenska Nýorku, Bláma og nokkra aðra evrópska samstarfsaðila, hafi á þessu ári landað LIFE styrk sem er einmitt ætlað að kortleggja orkuskipti í fimm strjálbýlum landshlutum í Evrópu.Sambandið hvatti til þess að hagsmunasamtök sveitarfélaga í Evrópu beiti sér fyrir því að samstarfssjóðir Evrópusambandsins nýtist sem best evrópskum sveitarfélögum.
Næsti fundur stefnumótunarnefndar CEMR verður í Belgrad í júní 2024.