Lilja Ósk hlaut hvatningarverðlaun á degi gegn einelti

Lilja Ósk Magnúsdóttir, verkefnastjóri forvarna- og félagsmála í Tækniskólanum, hlaut árleg hvatningarverðlaun samtakanna Heimili og skóli fyrir framlag sitt til eineltisforvarna á árlegum degi gegn einelti.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Lilja Ósk Magnúsdóttir verðlaunahafi, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Ljósm.: Anna Ingadóttir

Guðni Th. Jóhann­esson og Ásmundur Einar Daðason afhentu Lilju verðlaunin við hátíðlega athöfn í Hóla­brekku­skóla í Breiðholti.

Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum velur verðlaunahafa af innsendum tilnefningum en verðlaunin eru veitt einstaklingi eða verkefni sem talinn er hafa unnið ötullega gegn einelti.

Dagur gegn einelti er haldinn hátíðlegur þann 8. nóvember ár hvert en á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúm og er skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti. Þá er tækifæri til að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu. 

„Lilja Ósk er einstaklega flink að tala við fólk á jafnréttisgrundvelli og það má finna þá alúð sem hún leggur í störf sín… Lilju Ósk hefur tekist að uppræta fordóma og einelti af slíkri list, að samfélagið er betra samfélag, fyrir hennar störf.“

Á vef Tækniskólans er viðtal við Lilju þar sem hún segir m.a. að þegar hún hugsar um einelti eru minn­ingar frá æsku það fyrsta sem kemur upp í hugann:

„Það koma upp í hugann þessir krakkar sem voru lagðir í einelti þegar ég var í grunnskóla. Þetta umhverfi sem einelti þrífst í. Sjálf var ég viðkvæm og órögg þannig ég stóð ekki upp á þessum tíma heldur stóð hjá. Ég vil þó trúa því að eftir að ég varð öruggari að þá hafi ég byrjað að standa upp og komist nær því að vera græni kallinn í eineltismálum.“

Lilju finnst hins­vegar skipta mestu máli að hlúa að umhverfinu:

„Skólabragurinn, bekkjarandinn. Að nemendur þori að sýna veikleika og styrkleika í sínu umhverfi og að vera þau sjálf. Einelti á sér nefnilega stað í umhverfi sem er óöruggt. Okkar starf er að skapa öruggt umhverfi þar sem einelti þrífst ekki. Það er líka virkilega mikilvægt að hlusta á og virða tilfinningar barna og unglinga. Gefa þeim færi og tengjast krökkunum þannig að þau vilji tala við mann. Sýnum öllum mannlega virðingu og kennum börnum samkennd og tilfinningafærni.“

Samband íslenskra sveitarfélaga óskar Lilju til hamingju með viðurkenninguna.

Forseti Íslands fékk góðar móttökur hjá nemendum Hólabrekkuskóla í dag. Ljósm.: Anna Ingadóttir