Leiðbeiningar um endurnýtingu úrgangs í fyllingar birtar 

Umhverfisstofnun hefur birt leiðbeiningar um endurnýtingu úrgangs til fyllingar á vefsíðu heimasíðu stofnunarinnar.

Umhverfisstofnun er skv. 4. gr. reglugerðar 1400/2020 gert að gefa út leiðbeiningar um meðhöndlun mengaðs jarðvegs. Stofnunin hefur unnið leiðbeiningar um viðmiðunarmörk fyrir mengaðan jarðveg og frummat fyrir menguð svæði. Leiðbeiningar um áhættugreiningu, aðferðir við sýnatöku og meðhöndlun mengaðs jarðvegs verða gefnar út síðar.  

Í leiðbeiningum Umhverfisstofnunar koma fram kröfur sem þarf að uppfylla svo að aðgerð teljist fylling: 

  1. Úrgangur til endurnýtingar sem notaður er í fyllingar þarf að koma í staðinn fyrir efni (sem ekki er úrgangur) sem annars væri keypt eða fengið sérstaklega fyrir framkvæmdina, t.d. úr námu. 
  1. Úrgangur til endurnýtingar sem notaður er má einungis vera í því magni sem þarf fyrir framkvæmdina. 
  1. Úrgangur til endurnýtingar sem notaður er í fyllingu skal henta í fyrirhugaða framkvæmd.  

Leiðbeiningum um viðmiðunarmörk fyrir mengaðan jarðveg er ætlað að varpa ljósi á muninn á mismunandi hugtökum varðandi meðhöndlun jarðvegar sem fellur undir endurnýtingu. Á vefsíðu Umhverfisstofnunar segir að frummat fyrir menguð svæði sé skilgreint sem fyrsta mat á umfangi og eðli mengunar. Markmið frummatsins er að heilbrigðiseftirlit sveitafélaganna geti á einfaldan og fljótlegan hátt með takmörkuðum gögnum metið hvers eðlis mengun er. Niðurstöðunum er ætlað að leggja grunn að ákvörðunum um hvort framkvæmt skuli áhættugreiningu, farið verði í frekari rannsóknir, ráðist í úrbætur eða mögulega hvort um sé að ræða umhverfisábyrgð í skilningi laga nr. 55/2012 um umhverfisábyrgð.  

Leiðbeiningar á vefsíðu Umhverfisstofnunar.