Launamunur kynjanna minnstur meðal starfsfólks sveitarfélaga

Launamunur  kynjanna er ólíkur eftir mörkuðum og er munurinn minnstur meðal starfsfólks sveitarfélaga.

Í síðustu launarannsókn Hagstofunnar sem kom út árið 2021 má finna upplýsingar um bæði óleiðréttan launamun og leiðréttan launamun kynjanna eftir mörkuðum. Þar kemur fram að árið   2019 var óleiðréttur launamunur 14,8% á almennum vinnumarkaði, 14,0% hjá ríkisstarfsmönnum og 7,4% meðal starfsfólks sveitarfélaga. Leiðrétti launamunurinn var 5,4% á almennum vinnumarkaði, 3,4% hjá ríkisstarfsmönnum og 3,1% á meðal starfsfólks sveitarfélaganna.

Ekki hefur verið gerð sambærileg launarannsókn síðan þá en árlega gefur Hagstofan út tölur um óleiðréttan launamun sem sýna að munurinn fer minnkandi eftir árum. Hægast gengur að ná muninum niður á alamenna markaðinum þar sem hann mælist 13,5% árið 2022 en 9,1% hjá ríkisstarfsmönnum og 6,1% á meðal starfsfólks sveitarfélaganna á sama tíma.

Sérstöðu sveitarfélaganna má að minnsta kosti að hluta skýra með notkun starfsmatskerfis við grunnlaunasetningu undanfarin næstum aldarfjórðung.

 201920212022
 Óleiðréttur launamunurLeiðréttur launamunurÓleiðréttur launamunurÓleiðréttur launamunur
Allir13,9%4,3%10,2%9,1%
Almenni markaðurinn14,8%5,4%13,9%13,5%
Ríki14,0%4,3%10,0%9,1%
Sveitarfélög7,4%3,1%6,1%6,1%
Niðurstöður launarannsóknar Hagstofunnar 2019-2022.

Jafnlaunastofa

Með stofnun Jafnlaunastofu, í samstarfi við Reykjavíkurborg, setur Samband íslenskra sveitarfélaga aukinn þunga í vinnu að launajafnrétti kynjanna en Jafnlaunastofu er ætlað að veita sveitarfélögum fræðslu og ráðgjöf í tengslum við starfsmat og jafnlaunamál. En Jafnlaunastofu er einnig ætlað að vinna að uppbyggingu og miðlun þekkingar um jafnalaunamál og koma að umbótum og þróun matskerfa til að meta bæði grunn- og viðbótarlaun til að tryggja að launasetning byggi á skýrt skilgreindum og málefnalegum viðmiðum í samræmi við jafnlaunaákvæði laga.