Launagreiðslur í sóttkví vegna ferðalaga erlendis

Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur borist fjöldi fyrirspurna um hvernig eigi að haga launagreiðslum þegar starfsfólk fer erlendis á eigin vegum og þarf að fara í sóttkví í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnarlæknis þegar heim er komið.

Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur borist fjöldi fyrirspurna um hvernig eigi að haga launagreiðslum þegar starfsfólk fer erlendis á eigin vegum og þarf að fara í sóttkví í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnarlæknis þegar heim er komið. Í leiðbeiningum sóttvarnarlæknis kemur skýrt fram að þeim sem búa á Íslandi er ráðið frá ónauðsynlegum ferðalögum á áhættusvæði. Á heimasíðu Landlæknisembættis má finna lista yfir skilgreind svæði með mikla smitáhættu. Sem stendur eru öll lönd önnur en Færeyjar, Grænland, Danmörk, Noregur, Finnland og Þýskaland skilgreind sem áhættulönd vegna COVID-19. Það þýðir að einstaklingar búsettir á Íslandi sem ferðast til þessara landa þurfa að fara a.m.k. í sóttkví í 5 daga miðað við núverandi leiðbeiningar. Vakin er athygli á því að listi yfir áhættusvæði getur breyst og því þurfa starfsmenn sem stefna á ferðalög að fylgjast vel með breytingum á þeim lista.

Í ljósi þess er rétt að árétta að starfsfólk sem fer erlendis í frí á áhættusvæði fara í sóttkví, þennan tíma, á eigin ábyrgð. Starfsfólk þarf því að gera ráð fyrir sóttkví í a.m.k. 5 daga eftir heimkomu og taka orlof þá daga eða vera í launalausri fjarveru. Áður en farið er erlendis þarf því starfsfólk að óska eftir því og fá samþykkt frí þann tíma. Í einhverjum tilfellum kann að vera að starfsfólk geti samið um að starfa að heiman þann tíma, ef verkefni leyfa.

Sambandið vill einnig vekja athygli á því að Íslendingar sem snúa aftur heim frá Færeyjum, Grænlandi, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi eru hvattir til að sýna varúð fjórtán daga eftir heimkomu, viðhalda einstaklingsbundnum smitvörnum og forðast á þeim tíma samneyti við viðkvæma einstaklinga. Starfsmenn sem vinna innan um viðkvæma einstaklinga þurfa því að taka tillit til þessara leiðbeininga ef stefnt er á ferðalög til þessara landa.

Hér má nálgast uppfærða töflu til útskýringa á launagreiðslum vegna sóttkví eða veikinda vegna COVID-19.