Látum heldur verkin tala

Engin hagræðing er fólgin í því að ýta kostnaði af einu stjórnsýslustigi yfir á það næsta, sagði Sigrún Þórarinsdóttir, félagsþjónustufulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga á fjármálaráðstefnu í dag. Sigrún fjallaði þar um svokölluð grá svæði í opinberri þjónustu.   

Engin hagræðing er fólgin í því að ýta kostnaði af einu stjórnsýslustigi yfir á það næsta, sagði Sigrún Þórarinsdóttir, félagsþjónustufulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga á fjármálaráðstefnu í dag. Sigrún fjallaði þar um svokölluð grá svæði í opinberri þjónustu.   

Gráu svæðin myndast, að sögn Sigrúnar, samfara misfellum í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og fjármögnun verkefna. Þau eru mörg og fari í bága við meginregluna um að hagsmunir notenda eigi ávallt að vera í fyrirrúmi hjá ríki og sveitarfélögum.

Sigrún nefndi nokkur dæmi um grá svæði, en viðkvæmasti hópurinn er jafnan börn undir lögaldri sem glíma við alvarlegar geð- og þroskaraskanir, börn í þröf fyrir þjónustu talmeinafræðinga eða tilvik þar sem beita þarf snemmtækri íhlutun. Í þeim tilvikum verða kerfin tvö að geta talað saman og það kalli á viðhorfsbreytingu.

Hver á að gera hvað þegar barn er fatlað og mál þess unnið skv. ákvæðum barnaverndarlaga? Hver á að sjá um þjónustu við fötluð börn af erlendum uppruna. Hver að sjá um aksturinn fyrir íbúa á hjúkrunarheimili sem þarf að komast í afmælisfögnuð út í bæ? Hver á að sinna innliti um kvöld og helgar þegar einstaklingur þarf sannarlega á því að halda. Hver...hver...hver...hver?

Á vegum ríkis og sveitarfélaga er starfandi grábókarnefnd, sem hefur þann starfa að vinna bug á gráum svæðum, með kortlagning þeirra og þess kerfislæga vanda sem um er að ræða. Svæðin eru sem stendur um 30 talsins. Jafnframt er mikilvægt að þessum svæðum fjölgi ekki og nefndi Sigrún í því sambandi að skil í akstursþjónustu séu áfram óljós enda þótt ný lög hafi tekið í gildi í vor um málefni fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir og breytt lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. 

Á heildina litið er þó mikilvægasta viðfangsefnið það, að mati Sigrúnar, að það verði viðurkennt að engin hagræðing felist í því að ýta kostnaði á milli stjórnsýslustiga. Með grábókarnefndinni og öðrum  samstarfsnefndum ríkis og sveitarfélaga, séu komin viðeigandi verkfæri sem nota megi til að  vinna bug á gráu svæðunum. Jafnframt sé framþróun í velferðartækni að opna nýjar leiðir og möguleika. Forsendur séu því til staðar að láta verkin tala með raunfækkun grárra svæða í opinberri þjónustu.