01. maí 2017

Landsþingið 2017

  • Halldor_Halldorsson

Í lok mars sl. héldum við 31. landsþing sambandsins og það síðasta á kjörtímabilinu. Vel tókst til og góðar umræður sköpuðust. Næst höldum við landsþing að hausti 2018 þar sem mörkuð verður stefna fyrir nýhafið kjörtímabil. Að venju verður það landsþing þriggja daga og haldið norður á Akureyri.

Á nýliðnu landsþingi var umfjöllun um sveitarstjórnarstigið og eflingu þess sem og endurskoðun fjármálakafla sveitarstjórnarlaga, lífeyrismálin, rammasamninginn um starfsemi hjúkrunarheimila, húsnæðismálin og kjaramálin. Einnig var fjallað um Grábók sambandsins, sem er yfirlit um grá svæði í velferðarþjónustu ríkis og sveitarfélaga en í nýju samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um markmið um afkomu og efnahag sveitarfélaga árin 2018-2022 er ákvæði um að fara í markvissa vinnu við að fækka þeim gráu svæðum. Þetta er mjög mikilvægt því ekki er viðunandi að sífellt fleiri verkefnum sé ýtt af hálfu ríkisins yfir til sveitarfélaganna án þess að mat á kostnaði og það hvernig bregðast eigi við slíkum kostnaði sé jafnóðum leyst.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði landsþingið og í máli hans kom fram að fyrir Alþingi liggi a.m.k. þrjú stjórnarfrumvörp sem varða beinlínis sveitarstjórnarstigið:

  1. Frumvarp til breytinga á sveitarstjórnarlögum. Breytingin varðar ákvæði um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn og snýr að því að Reykjavíkurborg geti sjálf ákveðið fjölda borgarfulltrúa.
  2. Frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Tilgangur frumvarpsins er að vega á móti áhrifum laga nr. 40/2014, er varða séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, á útsvarstekjur sveitarfélaganna.
  3. Frumvarp sem heimilar ríki og sveitarfélögum gjaldtöku af uppbyggingu bílastæða vítt og breitt um landið, utan þéttbýlisstaða.

Örkönnun á landsþinginu um stærðarmörk sveitarfélaga – nýjar fréttir

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 2017 var umræðustjórum á hverju borði falið að leggja örkönnun fyrir landsþingsgesti um stærðarmörk sveitarfélaga. Umræðustjóri dreifði blöðum með tveimur spurningum og voru fulltrúar með atkvæðisrétt sem og áheyrnarfulltrúar, beðnir um að svara spurningunum, brjóta blaðið saman og afhenda ritara borðsins. Alls svöruðu 136 einstaklingar spurningunum.

Fyrri spurningin var um hvort setja ætti ákvæði um lágmarksíbúafjölda, varðandi stærð sveitarfélaga, inn í sveitarstjórnarlögin. Þessu svöruðu 63% svarenda játandi en um 33% neitandi.

Síðari spurningin var um hver lágmarksíbúafjöldinn ætti að vera að mati þeirra sem sögðu já. Það dreifðist frá 100 íbúa lágmarki og yfir 3.000 íbúa lágmark.

Það er því ljóst að meirihluti landsþingsfulltrúa á landsþinginu 2017 telur að lágmarksíbúafjöldi verði settur inn í sveitarstjórnarlögin. Þessi umræða er hafin og rétt að líta til þess við ákvörðun dagskrár landsþingsins 2018. Hugsanlega er stefnubreyting af hálfu landsþingsfulltrúa framundan. Það væru nýjar fréttir. Til þessa hafa landsþing sambandsins ekki samþykkt að lágmarkstala íbúa ætti að vera í sveitarstjórnarlögum.

Halldór Halldórsson
formaður