Landsþing sambandsins í Hörpu

Landsþing sveitarfélaga var sett í Hörpu í morgun, fimmtudaginn 14. mars. Landsþing hefur æðsta vald í málefnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og kemur saman árlega, að jafnaði í mars eða apríl.

Kjörnir fulltrúar sveitarfélaga um allt land ræða á Landsþingi þau málefni sem helst brenna á sveitarfélögunum.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti landsþingið og ræddi í ávarpi sínu samtakamátt sveitarfélaga og mikilvægi þess að þau stígi sterkt og samstíga inn ef þau ætla að hafa rödd við borðið. Þá ávarpaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þingið og ræddi samstöðu landsmanna og viðbrögð við áskorunum.

Fyrir hádegishlé áttu Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og Heiða Björg samtal um sveitarstjórnarmál sem Sigríður Hagalín Björnsdóttir stýrði. Í kjölfarið tóku þau Sigurður Ingi og Heiða Björg við fjölmörgum spurningum landsþingsfulltrúa úr sal.

Eftir hádegi hélt Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna erindi um viðbrögð samfélagsins við hamförum og í kjölfarið fóru fram umræður á borðum um hamfarir og áskoranir sveitarfélaga við að mæta þeim. Þá stýrði Sigríður Hagalín umræðum um hamfarir og áföll.