Landsáætlun til 12 ára

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert umsögn um drög að landsáætlun til 12 ára ásamt verkefnaáætlun fyrir tímabilið 2018-2020. Gæta verður að samspili við önnur verkefni, s.s. samgönguáætlun, eigi landsáætlun að ganga fram.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert umsögn um drög að landsáætlun til 12 ára ásamt verkefnaáætlun fyrir tímabilið 2018-2020.

Sambandið átti aðkomu að vinnu verkefnastjórnar fyrir gerð landáætlunar, ásamt því að leggja starfsmann til verkefnisins sem vann að öflun og úrvinnslu gagna frá sveitarfélögum og landshlutasamtökum.

Verkefnaáætlun til þriggja ára felur, að mati sambandsins, í sér framfaraskref. Samfara auknum fyrirsjáanleika geti framkvæmdaaðilar skipulagt sig lengra fram í tímann en áður og ástæða er til að skoða hvort endurnýja ætti áætlunina jafnvel árlega.

Þá er að mati sambandsins ekki rétt að útiloka að sami ferðamannastaður geti fengið fjármögnun á grundvelli bæði framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og landsáætlunar, enda séu fyrir því gild rök hverju sinni. 

Þá minnir sambandið á að landsáætlunin felur í sér umtalsverð tengsl við önnur verkefni. Sem dæmi þá dugar ekki eitt og sér að byggja upp innviði á ferðamannastöðum. Einnig verði að huga að samgöngum og því sé mikilvægt að hugað verði að samspili við landsáætlun í samgönguáætlun. Jafnframt verður að tryggja Vegagerðinni næga fjármuni til framkvæmda samfara fjölgun verkefna, auk þess sem skilgreina verður hlutverk Vegagerðarinnar í ferðaþjónustu betur, svo sem varðandi merkingar og bílastæði á ferðamannastöðum og vegaútskot á vinsælum útsýnisstöðum.

Gistináttagjaldið renni til sveitarfélaganna

Þá hvetur sambandið eindregið til þess að gistináttagjaldið verði sem fyrst látið renna til sveitarfélaga, eins og gert er ráð fyrir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Auk þeirra sívaxandi verkefna sem þarfnast fjármögnunar, leggja sveitarfélögin þegar mikla fjármuni til ferðaþjónustu í uppbyggingu og viðhaldi innviða og náttúru- og menningartengdri starfsemi ýmiss konar.

Vinnan vegna landsáætlunar hefur tekið nokkuð lengri tíma en upphaflega var áætlað, sem sambandið telur að rekja megi að mestu leyti til þess að um frumraun er að ræða hér á landi og lærdómsferli í vinnunni hafi því eðlilega sett sitt mark á framgang málsins.