Power2Her, skýrsla CEMR, Evrópusamtaka sveitarfélaga, um stöðu kvenna í stjórnmálum leiðir í ljós, að konur voru einungis 31% kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi og 18% af borgar- og bæjarstjórum í Evrópu á árinu 2018.
Power2Her, skýrsla CEMR, Evrópusamtaka sveitarfélaga, um stöðu kvenna í stjórnmálum leiðir í ljós, að konur voru einungis 31% kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi og 18% af borgar- og bæjarstjórum í Evrópu á árinu 2018.
Skýrslan er liður í vitundarátakinu Power2Her - Women in politics sem hefst formlega í dag, á alþjóðabaráttudegi kvenna. Á kynningu átaksins sagði Stefano Bonaccini, forseti Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, að þetta lága hlutfall kvenna væri til skammar fyrir Evrópu og var ekkert að skafa af vonbrigðum sínum með stöðuna í jafnréttismálum kynjanna.
Þátttaka kvenna á Íslandi í sveitarstjórnarmálum er góð í samanburði við önnur Evrópulönd. Ísland er í efsta sæti þegar kemur að kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstigi með 47%, en fast á eftir fylgir Svíþjóð með 43% fulltrúa og Úkraína með 42%. Þá er Ísland einnig í efsta sæti þegar horft er til borgar- og bæjarstjóra með 36% kvenna í framkvæmdastjórastarfinu. Því sæti deilir Ísland með Slóvakíu en næsta á eftir kemur Svíþjóð með 33% fulltrúa.
Með hliðsjón af hlut stjórnmálakvenna hér á landi á sveitarstjórnarstigi, vekur það óneitanlega athygli að einungis 38% alþingismanna eru konur og gerir þetta lága hlutfall að verkum að Ísland nær í Evrópusamanburði ekki inn á topp 5-listann. Þar standa okkur framar lönd á borð við Svíþjóð með 44% þingmanna, Finnland með 42% þingmanna og Noregur með 41%. Þá eru einnig hlutfallslega fleiri konur á franska þinginu, eða 40% þingmanna.
Þá er í Power2Her skýrslunni þróunin til síðustu 10 ára einnig rakin og hefur stjórnmálaþátttaka evrópskra kvenna vissulega verið að aukast á þeim mælikvarða. Þannig voru konur 13% af borgar- og bæjarstjórum Evrópu árið 2008 og 27% kjörinna fulltrúa. Að mati CEMR er það engu að síður áhyggjuefni hversu hæg þróunin er og í sumum tilvikum jafnvel í öfuga átt.
Þessi staða einskorðast ekki við Evrópu. Ef fram heldur sem horfir mun það taka konur heila öld að ná jafnstöðu við karla í stjórnmálum í heiminum, að því er segir í skýrslu World Economic Forum, sem kom út á síðasta ári.
En, hvað er til ráða? Í Power2Her skýrslunni er bent á, að kvótar og löggjöf sem áskilur jafnt kynjahlutfall sé sú aðgerð sem líklegust er til að skila árangri. Vandinn sé ekki sá, að konur gefi ekki færi á sér í stjórnmálin heldur að þær fái ekkert færi. Kynjakvótar tryggi jafnari tækifæri á milli kynjanna.
Power2Her átakið beinist að kosningunum sem fram fara til Evrópuþingsins í maí nk. Standa vonir til þess að átakið muni skila sér í auknum fjölda kvenna á framboðslistum stjórnmálaflokka og hvetja auk þess kjósendur til að velta kynjahlutfallinu fyrir sér áður en þeir ákveða hvaða flokk þeir ætli að kjósa. Þess má svo geta, að konur eru nú 36% af þingmönnum Evrópuþingsins.
Power2Her átakinu verður fylgt eftir með lokaskýrslu sem gefin verður út í september nk. og verður fróðlegt að hvaða árangri það skilar fyrir kynjahlutfallið á Evrópuþinginu.