Kynskiptur vinnumarkaður

Það liggur fyrir að kynskiptur vinnumarkaður skýrir að mestu leyti launamun kynjanna. Í hinum kynskipta vinnumarkaði felst að karlar og konur starfa í ólíkum atvinnugreinum og störfum.

Hin hefðbundnu kvennastörf eru að jafnaði minna metin en hefðbundin karlastörf. Þannig eru störf í félags-, heilbrigðis- og menntastofnunum að jafnaði verr launuð en störf í bygginga- og fjármálastarfsemi.

Sveitarfélögin undantekning

Til að útrýma launamun kynjanna er ekki nóg að hvetja konur í verkfræði eða fjölga körlum í hjúkrun, beina þarf sjónum að því á hvaða forsendum launasetning og mat á virði starfa byggir. Í aðgerðum og aðgerðaáætlunum stjórnvalda undanfarna áratugi  hefur lítið farið fyrir aðgerðum sem beinast að kynskipta vinnumarkaðinum og endurmati kvennastarfa til að draga úr launamun kynjanna.  Hér eru sveitarfélögin undantekning. En grunnlaunasetning sífellt stærri hluta starfa sveitarfélaganna hefur byggt á starfsmati á hátt í 25 ár með þeim árangri að launamunur kynjanna hefur dregist meira saman en á öðrum mörkuðum hér á landi.

Jafnlaunastofa

Með stofnun Jafnlaunastofu, í samstarfi við Reykjavíkurborg, setur Samband íslenskra sveitarfélaga aukinn þunga í vinnu að launajafnrétti kynjanna en Jafnlaunastofu er ætlað að veita sveitarfélögum fræðslu og ráðgjöf í tengslum við starfsmat og jafnlaunamál. En Jafnlaunastofu er einnig ætlað að vinna að uppbyggingu og miðlun þekkingar um jafnalaunamál og koma að umbótum og þróun matskerfa til að meta bæði grunn- og viðbótarlaun til að tryggja að launasetning byggi á skýrt skilgreindum og málefnalegum viðmiðum í samræmi við jafnlaunaákvæði laga.