Kynningarfundur á vegum Uppbyggingarsjóðs EES – Tækifæri til þátttöku í sveitarstjórnaráætlun Pólands

Þann 2. desember verður haldinn kynningarfundur fyrir Sveitarstjórnaráætlun Pólands. Áætlunin er fjármögnuð af Uppbyggingarsjóði EES og eitt af markmiðum áætlunarinnar er að stuðla að samstarfi pólskra, íslenskra og norskra sveitarfélaga.

Um sérstaka sveitarstjórnaráætlun er að ræða og í því felast kjörin tækifæri fyrir íslensk sveitarfélög til þátttöku í samstarfsverkefnum með pólskum sveitarfélögum. Þá má einnig vel sjá fyrir sér samstarfsverkefni með aðkomu pólskra, íslenskra og norskra sveitarfélaga.

Þátttaka í þessari áætlun er einnig áhugaverð í ljósi þess að pólskir ríkisborgarar eru lang stærsti hópur innflytjenda á Íslandi, en það skapar hugsanlega áhugaverða snertifleti í samstarfi á milli íslenskra og pólskra sveitarfélaga.

Pólska sveitarstjórnaráætluninni styrkir gerð og framkvæmd þróunaráætlana í 15 pólskum sveitarfélögum þar sem áhersla er lögð á málefni sem tengjast eftirfarandi sviðum:

  • Umhverfis- og loftslagsmál.
  • Félagsleg úrræði.
  • Efnahags- og atvinnuuppbygging.

Kynningarfundurinn fer fram á netinu 2. desember frá 8.30 til 11.30 að íslenskum tíma.

Sveitarfélög, sem hafa áhuga á að kynna sér þau tækifæri sem þeim stendur til boða varðandi þátttöku í áætluninni og hvað í því felst, eru hvött til þess að taka þátt í kynningarfundinum.

Kynningarfundurinn fer fram a ensku, fyrir utan eitt erindi sem er á norsku en í því tilviki er boðið upp á túlkaþjónustu yfir á íslensku.

Uppbyggingarsjóður EES

Uppbyggingarsjóður EES er fjármagnaður af EES EFTA ríkjunum. Markmið hans er að draga úr félags- og efnahagslegu misræmi innan evrópska efnahagssvæðisins. Annað markmið sjóðsins er að efla tvíhliða samstarf milli EES EFTA ríkjanna og viðtökuríkjanna fimmtán: Búlgaría, Eistland, Grikkland, Króatía, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland.

Í þessu felast kjörin tækifæri fyrir íslenska aðila til þátttöku í evrópskum samstarfsverkefnum. Því leggur Samband íslenskra sveitarfélaga áherslu á að kynna þau tækifæri sem standa íslenskum sveitarfélögum til boða í tengslum við þátttöku í verkefnum sem fjármögnuð eru af Uppbyggingarsjóði EES.