Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks blása til heils dags kvennaverkfalls þann 24. október næstkomandi. Konur og kvár sem geta munu þá leggja niður störf.
Það er ekkert launungarmál að starfsemi sveitarfélaga skerðist verulega án vinnuframlags kvenna en 74% af starfsfólki sveitarfélaga er konur. Konur og kvár vinna fjölmörg störf þar sem þjónusta getur ekki með nokkru móti fallið niður, svo sem í heilbrigðisgeiranum, í þjónustu við börn, fatlað fólk, aldrað fólk og annað jaðarsett fólk.
Samband íslenskra sveitarfélaga tekur undir þau meginmarkmið kvennaverkfalls að hefðbundin kvennastörf, jafnt launuð sem ólaunuð, skuli meta að verðleikum og hvetur sveitarfélög til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að vinnuframlag kvenna og kvára sé sýnilegt og að sem flest þeirra geti tekið þátt í baráttudeginum 24. október, að hluta eða í heild.
Það er ljóst að skipuleggjendur kvennaferkfallsins sýna því ríkan skilning að sum störf eru þess eðlis að ekki er hægt að leggja þau alfarið niður án þess að stofna öryggi og heilsu fólks í hættu.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur því beint því til sveitarfélaga að huga vel að skipulagi starfseminnar þennan dag í samráði við starfsfólk, t.a.m. með því að tryggja að karlar gangi í öll störf sem þeir geta. Einnig að dregið verði úr starfsemi þar sem það er hægt með það að leiðarljósi að nauðsynlegustu almannaþjónustu verði sinnt þannig að öryggi og heilsu fólks verði ekki stefnt í hættu.
Þá hvetur sambandið sveitarfélög til að draga ekki af launum starfsfólks sem tekur þátt í kvennaverkfallinu að höfðu samráði við sinn stjórnanda.