Kveikjum neistann!

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Vestmannaeyjabær, Háskóli Íslands og Samtök atvinnulífsins staðfestu vilja sinn til samstarfs um undirbúning og framkvæmd þróunar- og rannsóknarverkefnis í Grunnskólanum í Vestmannaeyjum með það að markmiði að efla læsi og bæta líðan nemenda, með sérstakri áherslu á stöðu drengja.

Um er að ræða verkefni sem miðar að því að fylgja nemendum eftir frá upphafi grunnskólagöngu þeirra haustið 2021 og til loka hennar – alls í tíu ár.

Helgi Rúnar Óskarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum

Árangur og afurðir verkefnisins verða nýtt í þágu allra grunnskólanema á Íslandi. Sett verður á laggirnar menntarannsóknasetur í Vestmannaeyjum sem mun annast undirbúning og framkvæmd verkefnisins. Aðilar tengdir Samtökum atvinnulífsins leggja verkefninu lið með því að styrkja tvær 20% stöður gestaprófessora við rannsóknasetrið sem skipulagt verður í samvinnu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Samband íslenskra sveitarfélaga er ekki beinn aðili að viljayfirlýsingunni sem undirrituð var en mun styðja við framgang verkefnisins eins og kostur er.

Læsi, stærðfræði, náttúrufræði og hreyfing

Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda og tengjast þróun á kennsluháttum, kennsluefni og starfsþróun og ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda. Markmið verkefnisins eru meðal annars að:

  • 80% nemenda séu læsir við lok 2. bekkjar og að allir nemendur fái markvissa þjálfun í lesskilningi alla grunnskólagönguna.
  • Að nemendur fá þjálfun sem stuðlar að framúrskarandi færni í skapandi skrifum og framsögn.
  • Að nemendur öðlist ástríðu fyrir náttúru- og umhverfisfræði.
  • Að nemendur bæti hreyfifærni, hreysti og einbeitingu sína.

Hvatafólk verkefnisins eru bæjaryfirvöld í Vestmannaeyja, stjórnendur Grunnskólans í Vestmanneyjum og Hermundur Sigmundsson prófessor í lífeðlislegri sálfræði. Hermundur hefur meðal annars fengist við rannsóknir á samspili hreyfingar og náms, mikilvægi áhugahvatar og ástríðu og áhrif líðan á námsárangur drengja og stúlkna. Hann er ötull talsmaður þess að skólakerfið mæti betur þörfum drengja og kveiki áhuga þeirra.

Vonir standa til þess að lærdómur og niðurstöður úr verkefninu megi nýtast sem verkfæri til að efla uppbyggingu skólakerfisins á Íslandi í náinni framtíð.