Kröfur til hreinsunar fráveitu að aukast 

Fráveitutilskipun ESB hefur verið í endurskoðun. Núgildandi tilskipun er frá 1991 og hún var á sínum tíma tekinn inn í EES samninginn og af þeim sökum innleidd á Íslandi. Fastlega má gera ráð fyrir að hið sama muni gilda um endurskoðaða tilskipun. 

Almennt er talið að framkvæmd tilskipunarinnar hafi gengið vel, en með endurskoðuninni er henni ætlað að ná einnig til mengunar vegna örplasts og lyfjaleyfa. Þá þykir þörf á að tilskipunin nái til fámennari þéttbýlisstaða en nú er. Í núgildandi tilskipun ber að tryggja að skólp frá þéttbýli sem losar yfir 2.000 persónueiningar (p.e.) sé safnað og meðhöndlað í samræmi við tilteknar lágmarkskröfur. Endurskoðuð tilskipun miðar hins vegar við 1.000 p.e. 

Sambandið hefur fylgst náið með málinu frá því að drög að endurskoðaðri tilskipun voru lögð fram í október 2022. Þá hefur sambandið verið í nánu samstarfi við Samorku, Veitur og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, meðal annars við að koma athugasemdum og áherslum Íslands á framfæri við ESB. 

Þó svo að Ísland styðji markmið tilskipunarinnar þá hefur verið lögð áhersla á að hún sé sveigjanleg og taki tillit til þess að Ísland er strjálbýlt og að náttúrulegir viðtakar við strendur landsins séu af allt öðrum toga en gengur og gerist á meginlandi Evrópu. Þá sé mikilvægt að kostnaður við uppbyggingu fráveituinnviða sé í samræmi við aukinn ávinning fyrir umhverfið og að tryggt sé að framkvæmd tilskipunarinnar sé hagkvæm og raunhæf. 

Með fyrirvara um endanlega útfærslu á texta tilskipunarinnar, þá lítur út fyrir að nokkur af þeim atriðum sem Ísland hefur bent á hafi verið tekin til greina. Þar má t.d. nefna: 

  • Lengri tímafrestir og að tilteknar undanþágur verði áfram heimilaðar. 
  • Áhættumati verði beitt og liggi til grundvallar þegar kemur að ákvörðunum um meðhöndlun skólps. 
  • Áfram verði hægt að skilgreina síður viðkvæma viðtaka þegar um er að ræða losun frá minni þéttbýlisstöðum í strandsjó. 

Það er hins vegar ljóst að með endurskoðari tilskipun munu kröfur um hreinsun aukast og að þær munu að öllum líkindum ná til fleiri þéttbýlisstaða á Íslandi. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið vinnur að því að áætla hvaða kostnað þetta muni hafa í för með sér, en gera má ráð fyrir að hann sé verulegur. 

Í því tilliti er vert að benda á eftirfarandi atriði sem endurskoðuð tilskipun mun hafa í för með sér: 

Gildissvið tilskipunarinnar 

Gildissvið tilskipunarinnar verður víkkað þannig að hún nái til þéttbýlistaða með 1.000 persónueiningar (p.e.) í stað 2.000 p.e. eins og nú er. Í þessu felst að skylt verður að setja upp söfnunar- og hreinsikerfi á þessum stöðum og verður frestur til þess til ársins 2035. Tilskipunin mun þó að öllum líkindum innihalda einhverjar undanþágur fyrir fráveitur sem losa í strandsjó eða í svo kallaða síður viðkvæma viðtaka. 

Skólphreinsun 

Skylt verður að beita tveggja þrepa hreinsun áður en skólp er losað út í umhverfið. Þessi krafa mun ná til allra þéttbýlisstaða sem losa yfir 1.000 p.e. og skulu kröfur þar að lútandi uppfylltar fyrir árið 2035. Í framhaldi af því er gert ráð fyrir að þriggja og síðan fjögurra þrepa hreinsun verði innleidd í áföngum. Líklegt er að tilteknar undanþágur verða heimilaðar fyrir smærri þéttbýlisstaði. 

Framlengd framleiðendaábyrgð 

Til að standa straum af þeim viðbótarkostnaði sem mun fylgja fjórða þreps hreinsun er gert ráð fyrir því að framleiðendum lyfja og snyrtivara, sem hafa mengun í för með sér, verði gert að greiða að lágmarki 80% af kostnaði við þá viðbótarhreinsun sem um ræðir. 

Orkuhlutleysi og endurnýjanleg orka 

Gerðar verða kröfur um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda við starfrækslu fráveitu- og skólphreinsistöðva. Gert er ráð fyrir að frá og með árinu 2045 verða hreinsistöðvar í þéttbýli færar um að framleiða orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum sem til falla í starfseminni. Þannig megi tryggja orkuhlutleysi starfseminnar.