Þann 26. maí nk. ganga landsmenn að kjörborðinu og kjósa sér fulltrúa í 73 sveitarfélögum til næstu fjögurra ára. Íslendingar eru í nokkuð góðri þjálfun við að kjósa því tíðni alþingiskosninga er hærri en í meðalárum og stutt frá forsetakosningum. Það er því boðið upp á lýðræðisveislu nokkuð reglulega í því lýðræðisþjóðfélagi sem Ísland er.
Þann 26. maí nk. ganga landsmenn að kjörborðinu og kjósa sér fulltrúa í 73 sveitarfélögum til næstu fjögurra ára. Íslendingar eru í nokkuð góðri þjálfun við að kjósa því tíðni alþingiskosninga er hærri en í meðalárum og stutt frá forsetakosningum. Það er því boðið upp á lýðræðisveislu nokkuð reglulega í því lýðræðisþjóðfélagi sem Ísland er.
En til að geta boðið upp á veisluna þarf a.m.k. tvennt til: Annars vegar kjósendur og hins vegar frambjóðendur.
Þegar litið er yfir það svið er áhyggjuefni að þátttaka kjósenda minnkaði verulega í síðustu sveitarstjórnarkosningum sem haldnar voru árið 2014 því þá mættu 66,5% kjósenda á kjörstað en árið 1974 var þátttakan 87,8%. Er von að við spyrjum okkur hvort borgaravitund Íslendinga hafi farið aftur eða hvort alltof mörgum þyki ekki skipta máli hver eða hverjir séu kosnir til að fara með málefni síns sveitarfélags. Okkur vantar því augljóslega fleiri kjósendur til að geta sagst halda lýðræðisveislu. Mikilvægt er að umræða verði um þetta mál og að frambjóðendur veki áhuga kjósenda á að mæta á kjörstað því það hlýtur að skipta máli hverjir stjórna.
Alþingismenn úr nokkrum flokkum lögðu fram frumvarp á þessu þingi í því skyni að gera 16 ára kleift að kjósa og bjóða sig fram. Eflaust er ekkert að því að lækka aldur þeirra sem mega kjósa en við skulum þó hafa í huga að Alþingi ákvað fyrir allmörgum árum að fullorðinsaldri væri ekki náð við 16 ára aldurinn heldur 18 ára. Galli á þessu frumvarpi er hins vegar helst sá að gert var ráð fyrir að 16 ára gætu líka boðið sig fram, samt eru þau hvorki fjárráða né sjálfráða. Og annar galli er að frumvarpið kemur fram þegar sum framboð eru að verða búin að skipa sína framboðslista. Þetta verður því tæplega að lögum á þessu þingi og það væri hreinlega rangt að koma með ný lög svona seint.
En við þurfum að efla lýðræðisvitund þessa aldurshóps rétt eins og annarra og eru ungmennaráðin sem sveitarfélög hafa komið á fót mjög víða gott og mikilvægt skref í þá veru. Það eflir hið margumtalaða íbúalýðræði og eru sveitarfélög hvött til að sinna þessu verkefni af alúð.
Hin hliðin á því að geta boðið upp á lýðræðisveislu eru frambjóðendur. Þeir eru líka af skornum skammti. Ekki alls staðar en alltof víða gefur fólk sig hreinlega ekki til þessara starfa. Og við höfum séð það í undanförnum sveitarstjórnarkosningum að endurnýjun er alltof hröð meðal sveitarstjórnarfólks. Í kosningunum 2014 var 54% endurnýjun. Það er ekki eðlilegt að svo mikil endurnýjun sé og hljótum við að velta fyrir okkur hvers vegna fólk endist svona illa í þessu mikilvæga hlutverki.
Ástæðurnar eru eflaust margar en mikið álag utan venjulegrar vinnu, lítil laun, vanþakklæti og hreinlega illt umtal hvetur fólk ekki beinlínis til að halda áfram að sinna þeirri samfélagslegu ábyrgð sem felst í starfi sveitarstjórnarmanns. Oft verður fólk fyrir vinnu- og launatapi vegna þessara aukastarfa því alls staðar nema í Reykjavík eru þetta aukastörf með annarri vinnu.
Og konur virðast hætta fyrr en karlar í sveitarstjórnum. Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum var 21,8% árið 1990 en var komið í 44,5% árið 2014. Við verðum að vona að þetta hlutfall fari ekki niður í kosningum í vor eins og gerðist í síðustu alþingiskosningum. Til að það gerist ekki þurfa enn fleiri konur að gefa kost á sér í sveitarstjórnir landsins. Miðað við upptalningu á ókostum þess að vera í sveitarstjórn er þessi pistill kannski ekki heppilegur til að hvetja fólk til starfa en engu að síður er hann líka hugsaður til þess.
Sveitarstjórnarmenn með nýtt og endurnýjað umboð þurfa að fara yfir þessi mál ekki síður en önnur á næsta kjörtímabili og laga starfsumhverfið og launin. Svo einfalt er það. Við viljum búa í lýðræðisþjóðfélagi og sveitarstjórnir eru lykillinn að því að okkur sé það kleift.
Halldór Halldórsson
formaður