Kópavogsbær hefur fengið vottun fyrir WCCD lífskjara- og þjónustustaðalinn, ISO 37120 (World Council on City Data). Vottunin gerir sveitarfélaginu kleift að meta framgang mála hjá sér, bæði á milli ára og með alþjóðlegum samanburði við önnur vottuð sveitarfélög um heim allan. Þá nýtast mælingar samkvæmt staðlinum einnig innleiðingu Kópavogsbæjar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Kópavogsbær hefur fengið vottun fyrir WCCD lífskjara- og þjónustustaðalinn, ISO 37120 (World Council on City Data). Vottunin gerir sveitarfélaginu kleift að frammistöðu hjá sér, bæði á milli ára og með alþjóðlegum samanburði við önnur vottuð sveitarfélög um allan heim.
Þá nýtast mælingar samkvæmt staðlinum einnig innleiðingu Kópavogsbæjar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
WCCD staðallinn byggir í grófum dráttum á stöðluðum mælingum á þjónustu við íbúa og þeim lífskjörum sem þeir njóta. Mælingar fara fram með stöðluðum árangursvísum, sem eru alls 100 talsins og kortleggja með skipulegum hætti frammistöðu í félagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum málefnum. Með þessu móti er vottuðum sveitarfélögum gert kleift að greina frammistöðu sína gagnvart íbúum og lífskjörum þeirra hverju sinni og þar sem staðallinn er alþjóðlegur, geta vottuð sveitarfélög auk þess borið sig saman þvert á lönd og heimsálfur.
Fjölbreytileiki á milli sveitarfélaga getur verið talsverður í eina og sama landinu, eins og vel þekkist hér á landi. Alþjóðlegur samanburður getur því komið sér vel, s.s. fyrir sveitarfélög sem vilja bera sig saman við önnur sambærileg hvað umfang og íbúafjölda snertir. Þess má svo geta að Kópavogur fékk platínuvottun fyrir að skila inn 97 af 100 vísum til vottunar.
Árangursvísarnir gera í framkvæmd kröfu um margs konar og mismunandi mælingar og fylgdu því ýmsar áskoranir fyrir Kópavogsbæ að verða sér úti um öll nauðsynleg gögn. Það tókst þó á endanum í góðu samstarfi við fjölda ríkisstofnana, byggðasamlög og fyrirtæki. Þar á meðal má nefna Velferðarráðuneytið, Umhverfisstofnun, Samgöngustofu, Vinnumálastofnun, Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Þjóðskrá Íslands, Hagstofu Íslands, Embætti landlæknis, Landspítalann, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Lögreglu höfuðborgarsvæðisins, Strætó, Sorpu, Heilsugæslustöðvar Kópavogs og Gallup.
WCCD er alþjóðleg stofnun sem heldur utan um samanburðarhæfar mælingar sveitarfélaga og rekur stofnunin í því skyni ISO staðalinn 37120. Staðalinn er sá fyrsti hefur verið gerður eingöngu fyrir sveitarfélög. Má á vefgátt staðalsins fylgjast grannt með frammistöðumælingum vottaðra sveitarfélaga.
Kópavogsbær hefur áður fengið vottun fyrir ISO 9001 gæðastaðalinn. Þá kynnt sveitarfélagið ekki alls fyrir löngu skorkort, sem það lét gera fyrir sig á grunni vísitölu félagslegra framfara, SPI (e. Social Progress Index).
Þá er Kópavogsbær í samvinnu við OECD um þróun árangursmælikvarða vegna innleiðingar sveitarfélaga á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en bæjarstjórn Kópavogs samþykkti síðastliðið haust að innleiða þessi alþjóðlegu markmið um sjálfbæra þróun í yfirstefnu bæjarins.
- Vefgátt WCCD (skoða má mælingar fyrir viðkomandi sveitarfélags með því að velja nafn þess)
- Lífskjara- og þjónustustaðall í Kópavogi