Könnun um skipulagsmál sveitarfélaga

Þessa dagana er sveitarstjórnarfólki að berast í pósthólfið sitt könnun um framkvæmd skipulagsmála.

Um er að ræða könnun sem send er kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum, sveitarstjórum og fulltrúum í skipulagsnefndum sveitarfélaga um allt land. Einnig skipulagsfulltrúum, öðru starfsfólki sveitarfélaga sem sinnir skipulagsmálum og sjálfstætt starfandi ráðgjöfum sem sinna skipulagsverkefnum fyrir sveitarfélög.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sér um framkvæmd könnunarinnar, en að könnuninni stendur Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, skipulagsfræðingur. Könnunin er hluti rannsóknar á skipulagsmálum sveitarfélaga sem hún vinnur að sem doktorsverkefni í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Í könnuninni er spurt um ýmsa þætti sem varða stjórnsýslu og framkvæmd skipulagsmála í sveitarfélögum á Íslandi. Markmiðið er að afla upplýsinga um viðhorf framangreindra hópa til  skipulagsmála og varpa ljósi á faglegt bolmagn íslenskra sveitarfélaga í skipulagsmálum. Jafnframt  er markmið verkefnisins að setja fram hugmyndir um viðhald og eflingu faglegs styrks sveitarfélaga í skipulagsmálum.

Niðurstöður könnunarinnar verða settar fram í skýrslu og kynntar á vettvangi sveitarstjórnarfólks og fagfólks í skipulagsmálum.

Verkefnið er styrkt af Byggðarannsóknarsjóði. Nánari upplýsingar um könnunina veita Ásdís Hlökk Theodórsdóttir (asdishlokk@hi.is) og Karl Sigurðsson hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands (karsig@hi.is).