Á ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna í júlí nk. mun forsætisráðherra kynna skýrslu um stöðu innleiðingar heimsmarkmiðanna á Íslandi. Sambandinu hefur, f.h. íslenskra sveitarfélaga, verið boðið að taka þátt í skýrslugerðinni.
Mikilvægur þáttur í skýrslu um innleiðingu heimsmarkmiðanna í íslenskum sveitarfélögum verða svör þeirra á samnorrænni könnun um heimsmarkmiða- og sjálfbærnivinnu sveitarfélaga. Sambandið hefur sent bréf til allra sveitarstjórna með hvatningu um að svara könnuninni fyrir 31. mars nk. Með því að fara í gegnum könnunina fæst yfirsýn yfir hvaða þætti er mikilvægt að leggja áherslu á við innleiðingu heimsmarkmiðanna í sveitarfélögum.Því eru þau sveitarfélög, sem ekki hafa tekið formlega afstöðu til að vinna að innleiðingu markmiðanna, sérstaklega hvött til að fara í gegnum allar spurningarnar og svara könnuninni. Einnig vegna þess tilgangs könnunarinnar að fá yfirsýn yfir hvaða þættir eru að hindra innleiðingu og að hvaða leyti sveitarfélög þarfnast stuðnings til að vinna að markmiðunum.
Íslensk sveitarfélög sýndu strax í upphafi áhuga á að vinna að framgangi heimsmarkmiðanna og árið 2019 skrifuðu 44 af 69 sveitarfélögum undir yfirlýsingu um að vinna saman að innleiðingu þeirra. Sambandið hefur lagt áherslu á að styðja við innleiðingu markmiðanna í sveitarfélögum. Það fékk m.a. styrk úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að standa fyrir 6 mánaða stuðningsverkefni við sveitarfélög 2021-2022 til að fylgja eftir verkfærakistu fyrir sveitarfélög sem var gefin út í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Tæplega helmingur sveitarfélaga tók þátt í því verkefni. Nú er verið að leggja síðustu hönd á námsefni um heimsmarkmiðin í Sveitarfélagaskólanum og í samstarfi ríkis og sveitarfélaga hafa verið þróaðir HM-mælikvarðar sem verða vonandi tilbúnir til brúks fyrir sveitarfélög á næstu mánuðum.
Í stefnumörkun landsþings sambandsins fyrir núverandi kjörtímabil er rík áhersla á heimsmarkmiðin. Þannig er kveðið á um í meginmarkmiði 1.12 að heimsmarkmiðin skuli vera leiðarljós við framkvæmd stefnumörkunar, ásamt því að unnið verði markvisst að innleiðingu þeirra á sveitarstjórnarstigi. Í markmiði 9.11 er síðan áréttað að sambandið eigi að styðja sveitarfélög í innleiðingu markmiðanna. Sambandið vill því eindregið hvetja þau sveitarfélög sem ekki hafa hafið markvissa innleiðingu markmiðanna að kynna sér þau og ávinning af innleiðingu. Stjórnvöld, bæði í sveitarfélögum og hjá ríkinu standa frammi fyrir stórum áskorunum, s.s. vegna loftslagsvár, sem kalla á víðtækt samstarf og heildstæða nálgun. Heimsmarkmiðin hafa reynst gott sameiningartákn og stjórntæki þar sem þau fela í sér samstarfsramma sem allir geta tengt við.
Í tilefni af könnuninni og skýrslugerðinni til Sameinuðu þjóðanna hafa verið gerð örstutt myndbönd, þar sem bæjar- og sveitarstjórar segja frá því af hverju þeirra sveitarfélög hafa valið að leggja markmiðin til grundvallar og hverju vinnan hefur skilað.
Sambandið býður einnig upp á sérstakan kynningarfund um heimsmarkmiðin á Teams 29. mars nk. kl. 09:00. Fundurinn er öllum opin en sveitarfélög sem hafa ekki hafið markvissa vinnu að innleiðingu heimsmarkmiðanna eru sérstaklega hvött til að taka þátt í fundinum.