29. jún. 2017

Kolefnishlutleysisstefna Akureyrarbæjar og Eimur kynnt á Evrópuviku sjálfbærrar orku í Brussel

Þann 21. júlí sl. stóð Samband íslenskra sveitarfélaga, ásamt sveitarfélagasamböndum Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Skotlands, fyrir málstofu um framúrstefnuleg verkefni á sviði sjálbærrar orku í Norður-Evópu.

Forseti Svæðanefndar ESB, Markku Markkula, flutti opnunarávarp og fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB sagði frá stefnumiðum sambandsins í málaflokknum. Fyrir Íslands hönd sagði Albertína Friðbjörg Elíasdóttir frá Eimi, samstarfsverkefni Eyþings, Landsvirkjunar, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur, Íslenska ferðaklasans, jarðvarmaklasans og atvinnuþróunarfélaga. Verkefninu er ætlað að stuðla að aukinni sjálfbærni samfélaga á svæðinu með fjölbreyttari nýtingu orku og samspili samfélags, umhverfis, auðlinda og efnahags. Albertína sagði einnig frá aðgerðum Akureyrabæjar til að ná kolefnishlutleysi en erindi hennar vakti mikla athygli. Fulltrúi Noregs sagði frá umfangsmiklum orkuskiptaaðgerðum og breytingum á meðferð úrgangs í Bergen, finnski fyrirlesarinn sagði frá nýsköpun í orkusparandi byggingum og sá sænski frá frumkvöðlastarfi Svía í að ná kolefnishlutleysi á landsvísu og aðgerðum sveitarfélaga til að færa orkunotkun frá jarðefnaeldsneyti yfir í lífrænt eldsneyti. Í Skotlandi hefur mikill árangur náðst í að auka framleiðslu á sjálfbærri orku, m.a. vetnis þar sem sveitarfélög eru í fararbroddi við nýtingu.

Færri komust að en vildu en fulltrúi Samorku Lovísa Árnadóttir; Kristján Freyr Helgason, sendiráðunautur og Guðrún D. Guðmundsdóttir, forstöðumaður Brussel-skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga sátu málstofuna en viðburðurinn varpaði m.a. ljósi á lykilhlutverk sveitarfélaga í loftslagsaðgerðum, nýtingu sjálfbærrar orku og nýsköpun á þessu sviði.

Að lokinni málstofunni buðu aðstandendur þátttakendum til móttöku í húsi sveitarfélaganna, í samstarfi við Evrópusamtök sveitarfélaga, þar sem tækifæri gafst til að styrkja tengslin og ræða sjálfbær orkumál frekar.