Kjaradeilum við Starfsgreinasambandið og Eflingu-stéttarfélags vísað til Ríkissáttasemjara

Í dag vísaði samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga kjaradeilum sambandsins og Starfsgreinasambands Íslands og Eflingar til sáttameðferðar embættis ríkissáttasemjara.

Í dag vísaði samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga kjaradeilum sambandsins og Starfsgreinasambands Íslands og Eflingar til sáttameðferðar embættis ríkissáttasemjara.

Viðræður um endurnýjun kjarasamninga hafa staðið frá 15. mars sl. án árangurs.

Tilefni þess að Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga vísar deilunni til Ríkissáttasemjara má rekja til þeirra ósönnu fullyrðinga sem fram koma í ályktun þings Starfsgreinasambandsins, frá 25. október, um að illa sé komið fram við kvennastéttir í umönnunarstörfum og að þeim sé sýnd takmarkalaus lítilsvirðing í yfirstandandi kjaraviðræðum. Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga mótmælir þessum fullyrðingum harðlega og lítur svo á að upp sé kominn alger trúnaðarbrestur á milli aðila.

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga telur útilokað að árangur verði af frekari viðræðum milli aðila án aðkomu embættis ríkissáttasemjara, sem fari með verkstjórn viðræðna og sé til vitnis um það sem fram fer á fundum aðila.

Meðal þess sem fram kemur í ályktun Starfsgreinasambandsins er:

„Starfsgreinasambandið stendur í harðri kjaradeilu við sveitarfélögin, Reykjavíkurborg og ríki. Þar undir eru fjölmennar kvennastéttir í umönnunarstörfum. [Starfsgreinasambandinu] Sambandinu blöskrar hvernig komið er fram við þessar konur og hversu takmarkalaus lítilsvirðingin í þeirra garð lýsir sér í viðræðunum.“