05. feb. 2016

Yfirlýsing vegna kjarasamnings

Vegna yfirlýsinga Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, í fjölmiðlum um skuldbindingargildi kjarasamnings félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem undirritaður var þann 3. febrúar síðastliðinn, vill Samband íslenskra sveitarfélaga að eftirfarandi komi fram.
Með undirritun SALEK rammasamkomulagins þann 27. október 2015, samþykkti Samband íslenskra sveitarfélaga þá launastefnu og þau markmið sem rammasamkomulagið felur í sér og hefur á síðustu mánuðum lokið gerð kjarasamninga við 43 stéttarfélög á grundvelli þeirrar launastefnu. Hin nýgerði kjarasamningur við Verkalýðsfélag Akraness er þar engin undantekning. 
Hvort SALEK rammasamkomulagið er fylgiskjal samningsins eða ekki er aukaatriði, því skuldbinding við þá launastefnu sem samkomulagið felur í sér felst í inngangi kjarasamningsins, en þar segir:
„Kjarasamningur þessi byggir á þeirri launastefnu sem lagður var grunnur að í 2. gr. í rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðar sem undirritað var 27. október 2015.“ 
Með undirskrift kjarasamningsins hefur Vilhjálmur Birgisson því undirgengist launastefnu SALEK rammasamkomulagsins og þegið þær launahækkanir sem stefnunni fylgja.