23. nóv. 2016

Yfirlýsing Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga við Félag grunnskólakennara

 

Í ljósi umræðu um launastöðu grunnskólakennara þá vill Samband íslenskra sveitarfélaga koma eftirfarandi á framfæri:

Síðasti kjarasamningur sem gerður var við Félag grunnskólakennara hafði gildistímann 1. maí 2014 – 31. maí 2016.  Í þeim kjarasamningi var samið um breytingar á vinnutímakafla kjarasamnings og launahækkanir sem ætlað var að rétta af launastöðu grunnskólakennara gagnvart öðrum háskólamenntuðum starfsmönnum sveitarfélaga. 

Þær launahækkanir leiddu til þess að meðaldagvinnulaun félagsmanna hafa hækkað um 30% á samningstímanum.  Byrjunarlaun grunnskólakennara hafa á sama tíma hækkað sem nemur um 34% en aðilar voru sammála um nauðsyn þess að hækka byrjunarlaun til að bregðast við lítilli ásókn í kennaranámið.

Kjarasamningar grunnskólakennara voru lausir frá 1. júní 2016 og hefur samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga í tvígang undirritað kjarasamning við Félag grunnskólakennara frá þeim tíma, annarsvegar í lok maí 2016 og hinsvegar í lok ágúst 2016.  Þeir samningar hefðu tryggt kennurum sambærilegar hækkanir og samið hefur verið um við aðra hópa á vinnumarkaði vegna áranna 2016-2018.  Báðir samningarnir voru felldir í atkvæðagreiðslu kennara.

Nýútskrifađur grunnskólakennari með fimm ára háskólamenntun og án starfsreynslu fær í dag grunnlaun sem nema 418.848 kr. á mánuði.  Nýútskrifaður grunnskólakennari sem tekur að sér umsjónarkennslu fær  441.435 kr. í grunnlaun.

Grunnskólakennari sem lokið hefur 5 ára háskólanámi og hefur 15 ára starfsreynslu fær í dag 490.818 kr. í grunnlaun  og 517.787 kr. starfi viðkomandi sem umsjónarkennari.

Meðaldagvinnulaun félagsmanna í Félagi grunnskólakennara eru um 480.000 kr. í dag. 

Þegar meðaldagvinnulaun annarra háskólamenntaðra starfsmanna sveitarfélaga eru skoðuð þá hallar ekki á grunnskólakennara í þeim samanburði. 

Hér að neðan eru  upplýsingar um dagvinnulaun helstu starfsheita í kjarasamningi grunnskólakennara miðað við 5 ára háskólanám.  Af heildarfjölda kennara sinna tæp 60% umsjónarkennslu.

Taflan byggir á launastöðu í launatöflu A í kjarasamningi aðila en allir nýráðnir kennarar taka laun eftir henni ásamt þeim kennurum sem hafa afsalað sér kennsluafslætti en það eru um 90% kennara.

 

Félag grunnskólakennara Byrjunar- laun - 5 ára háskólanám 5 ára kennslu- ferill 10 ára kennslu- ferill 15 ára kennslu- ferill
Grunnskólakennari 418.848    441.435    465.394    490.818   
Umsjónarkennari/ Sérkennari 441.435    465.394    490.818    517.787   
Náms- og starfsráðgjafi 1 453.238    477.918    504.101    531.882   
Náms- og starfsráðgjafi 2/ Verkefnisstjóri 1 477.918    504.101    531.882    561.353   
Verkefnisstjóri 2 517.787    546.399    576.754    608.957   
Meðaldagvinnulaun í Félagi grunnskólakennara eru um 480.000 kr.

Hér að neðan sést launaþróun dagvinnulauna hjá Félagi grunnskólakennara í samanburði við launaþróun á opinberum vinnumarkaði annarsvegar og á almennum vinnumarkaði hinsvegar tímabilið mars 2013 til mars 2016.

Throun-launa