01. feb. 2016

Verkalýðsfélag Akraness tapar félagsdómsmáli gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Föstudaginn 29. janúar sl. vísaði Félagsdómur frá máli sem Verkalýðsfélag Akraness höfðaði á hendur Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna meints brots á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur vegna aðildar Sambands íslenskra sveitarfélaga að SALEK rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðar frá 27. október 2015.

Félagsdómur vísaði málinu frá og taldi Verkalýðsfélag Akraness ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm fyrir kröfum sínum.

Verkalýðsfélag Akraness hélt því fram fyrir dómi að rammasamkomulagið væri ígildi kjarasamnings þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga teldi sig skuldbundið til fylgja þeirri stefnu sem þar kemur fram.

Samband íslenskra sveitarfélaga mótmælti þessu enda lítur sambandið svo á að rammasamkomulagið sé ekki skuldbindandi um endanlega niðurstöðu kjaraviðræðna þó að sambandið telji sig bundið af því að leggja þau stefnumið sem fram koma í rammasamkomulaginu til grundvallar í kjaraviðræðum við viðsemjendur sína.

Samband íslenskra sveitarfélaga gerði þá aðalkröfu að málinu yrði vísað frá dómi enda heyrði meintur ágreiningur ekki undir Félagsdóm. Á þá kröfu sambandsins hefur Félagsdómur fallist og vísað málinu frá. Sambandið er að vonum ánægt með þá niðurstöðu og vonar að þar með ljúki þessum málarekstri og að aðilar geti lokið gerð kjarasamnings vegna félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness, sem starfa hjá Akranesbæ og hafa verið samningslausir frá 1. maí 2015.