04. jún. 2015

Vegna misvísandi frétta af félagsdómi

 

Vegna misvísandi fréttaflutnings Akureyrar-vikublaðs, þann 4. júní 2015, um dóm Félagsdóms í máli Sjúkraliðafélags Íslands gegn Akureyrarbæ vill Samband íslenskra sveitarfélaga koma eftirfarandi staðreyndum málsins á framfæri:

 

Dómsmál það sem um ræðir snerist um ágreining milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Sjúkraliðafélags Íslands um túlkun á röðunarákvæði í kjarasamningi aðila, sem undirritaður var 23. október á síðasta ári. Sjúkraliðafélag Íslands valdi að stefna Akureyrarbæ til að fá niðurstöðu í ágreining samningsaðila þrátt fyrir að öll þau sveitarfélög sem Samband íslenskra sveitarfélaga fer með samningsumboð fyrir hafi framkvæmt samninginn með sama hætti og Akureyrarbær og er í samræmi við túlkun og leiðbeiningar Samband íslenskra sveitarfélaga

 

Ágreiningurinn snertir því öll sveitarfélög sem veitt hafa Sambandi íslenskra sveitarfélaga umboð til gerðar kjarasamnings við Sjúkraliðafélag Íslands, ekki einungis stofnanir Akureyrarbæjar.

 

Akureyrarbær eins og önnur sveitarfélög á því engan þátt í þessu máli, annan en þann að framkvæma gerðan kjarasamning Sambands íslenskra sveitarfélaga og Sjúkraliðafélags Íslands í samræmi við túlkun og leiðbeiningar sambandsins.

 

Akureyrarbær greiðir ekki laun samkvæmt lögum, eins og fullyrt er í blaðinu, heldur samkvæmt gildandi kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélaga. Í þessu tilfelli framkvæmdu öldrunar- og hjúkrunarheimili Akureyrarbæjar kjarasamninginn og launaröðun sjúkraliða í einu og öllu samkvæmt túlkun sambandsins.

 

Samband íslenskra sveitarfélaga mun una dóminum og laun sjúkraliða verða leiðrétt í samræmi við niðurstöðu hans.