19. sep. 2016

Samræmt og sveigjanlegt lífeyrisskerfi til framtíðar

  • Undirskriftlifeyrismal

Mánudaginn 19. september var skrifað undir samkomulag ríkissjóðs, sveitarfélaganna, BSRB, Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Breytingarnar taka til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brúar – lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga.

Í samkomulaginu er kveðið á um samræmingu og jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði. Í því felst einnig að unnið verði að því að jafna mismun á launakjörum á milli þessara geira vinnumarkaðarins. Miðað er við, að eftir að breytingar hafa verið gerðar á lögum um LSR og samþykktum Brúar búi allir við sama fyrirkomulag í lífeyrismálum og geti fært sig milli lífeyrissjóða hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi teljandi áhrif á réttindi þeirra.

Sjóðfélögum í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna verða tryggð  sambærileg réttindi og þeir hafa nú með 120 milljarða króna framlagi hins opinbera til að mæta ófjármögnuðum framtíðarskuldbindingum vegna þeirra. Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verður fullfjármagnað  og kerfið sjálfbært.

UndirskriftlifeyrismalFyrir hönd sveitarfélaganna undirrituðu samkomulagið þeir Halldór Halldórsson formaður og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra undirritaði samkomulagið fyrir hönd ríkissjóðs og af hálfu samtaka opinberra starfsmanna undirrituðu skjalið Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB, Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM og Þórður Hjaltested formaður KÍ. Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra staðfesti samkomulagið með undirritun sinni.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins, mun gera nánari grein fyrir samkomulaginu og fjármögnun þess á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, sem hefst fimmtudaginn 22. september nk.

Nálgast má kynningarefni og samkomulagið í heild sinni á vef fjármálaráðuneytisins.