21. des. 2010

Samkomulag um launasetningu félagsmanna SFR

  • SIS_Kjara_starfsmannamal_760x640

Samband íslenskra sveitarfélaga og  SFR stéttarfélag í almannaþjónustu hafa undirritað samkomulag um launasetningu starfsmanna málefna fatlaðra við yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga nú um áramótin.

Með samkomulaginu er náð utan um fyrirkomulag launasetningar félagsmanna SFR, sem gildir þar til aðilar hafa lokið gerð kjarasamnings. Hér fyrir neðan má sjá samkomulagið í heild sinni:

S A M K O M U L A G
SFR stéttarfélag í almannaþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga gera með sér eftirfarandi samkomulag um launaröðun félagsmanna SFR vegna flutnings málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga þann 1. janúar 2011.
Aðilar eru sammála um að við yfirfærsluna skulu félagsmenn SFR stéttarfélags taka laun með eftirfarandi hætti frá og með 1.01.2011:

  1. að launasetning félagsmanna SFR fari eftir starfsmatskerfi Sambands íslenskra sveitarfélaga og kjarasamninga þess við þau stéttarfélög sem samið hafa um starfsmat.
  2. að félagsmenn SFR, sem hafa haft hærri laun hjá ríkinu en þeir fá samkvæmt starfsmatskerfi sveitarfélaganna, halda þeim óbreyttum að teknu tilliti í 3. liðar í samkomulagi þessu, þar til gengið hefur verið frá kjarasamningi á milli aðila.
  3. að félagsmenn SFR sem hafa haft lakari laun hjá ríkinu en þeir fá samkvæmt  starfsmatskerfi sveitarfélaganna, skulu verða jafnsettir þeim sem nú eru í starfsmatskerfinu, þar til gengið hefur verið frá kjarasamningi á milli aðila.
  4. að félagsmönnum SFR sem unnið hafa að framgangi sínum til launahækkana með námskeiðum og námi, sé gert kleift að ljúka þeim áföngum og njóta umbunar samkvæmt núverandi samningi, þar til gengið hefur verið frá kjarasamningi á milli aðila.

Aðilar stefna að því að ganga frá kjarasamningi hið fyrsta.


Undir samkomulagið rita Inga Rún Ólafsdóttir fh. Sambands íslenskra sveitarfélaga og Árni Stefán Jónsson fh. SFR stéttarfélags í almannaþjónustu.