25. nóv. 2010

Aukið samstarf í framhaldsfræðslu

  • SIS_Kjara_starfsmannamal_760x640

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Samtök atvinnulífsins (SA), fjármálaráðuneyti, og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu í gær yfirlýsingu um að efla samstarf sitt um að hækka menntunarstig íslensku þjóðarinnar til aukinnar virkni í atvinnulífi og samfélaginu í heild.

Aðilar þessa samkomulags munu sameiginlega vinna markvisst að því að hlutfall fólks á vinnumarkaði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsskólamenntunar verði ekki hærra en 10% árið 2020. Til að ná því markmiði verður framhaldsfræðsla efld, en ný lög um framhaldsfræðslu tóku gildi 1. október s.l. Jafnframt eru aðilar sammála um að það verði tryggt að menntun og færni sem er metin innan framhaldsfræðslunnar verði viðurkennd innan framhaldsskólans og þeir sem þess óska geti bætt við menntun sína án hindrana.

Frá árinu 2003 hafa mennta- og menningarmálaráðuneyti, ASÍ og SA starfað saman að símenntun á íslenskum vinnumarkaði. Með aðild BSRB, fjármálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins 6. maí 2010 hefur framangreint samstarf verið eflt og treyst enn frekar.

Í ljósi góðrar reynslu af framangreindu samstarfi vilja aðilar starfa saman að því meginmarkmiði að veita fólki á vinnumarkaði með litla grunnmenntun, fólki sem horfið hefur frá námi án þess að ljúka námi á framhaldsskólastigi, innflytjendum og öðrum sambærilegum hópum tækifæri til að afla sér menntunar, bæta stöðu sína á vinnumarkaði og í samfélaginu sem heild. Þá þarf framhaldsfræðslan að greiða leið þeirra sem þurfa, vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaði, á  nýrri þekkingu og færni að halda.

Með öflugri framhaldsfræðslu vilja aðilar þannig efla lýðræðislega þátttöku í samfélaginu og stuðla að jákvæðri byggðaþróun í landinu, stuðla að jafnrétti, auka félagslega aðlögun jaðarhópa m.a. fatlaðra og innflytjenda að atvinnulífi og samfélaginu, auka læsi fullorðinna, efla íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og auka starfstengda íslenskukennslu fyrir þá.