05. ágú. 2010

Grunnupplýsingar um kjaradeilu LN og LSS

 • pusl

Launanefnd sveitarfélaga hefur tekið saman grunnupplýsingar um kjaradeilu Launanefndar sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna.

 • LN og LSS eru aðilar að stöðugleikasáttmálanum sem gerður var milli ASÍ, BHM, BSRB, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins, ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga og undirritaður var 25. júní 2009. LSS sem aðildarfélag BSRB og LN gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga.
 • Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum átti að leggja áherslu á að styrkja stöðu þeirra tekjulægstu. LN, Reykjavíkurborg og viðsemjendur þeirra sættust á að hækkunin næði til dagvinnulauna sem væru undir kr. 200.000.- á mánuði.
 • LN telur sig skuldbundna til að virða markmið stöðugleikasáttmálans, bæði gagnvart þeim sem áttu aðild að þeim kjarasamningum sem gerðir voru á árinu 2009 og þeim sem enn er ólokið. Þar er samningur við slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn ekki undanskilinn.
 • Forystumenn LSS undirrituðu kjarasamning við LN þann 14. júlí 2009. Sá samningur grundvallaðist á ákvæðum stöðugleikasáttmálans. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn höfnuðu kjarasamningnum í atkvæðagreiðslu. Þar með hafnaði félagið launahækkunum fyrir launalægstu félagsmenn sína.
 • Meðaldagvinnulaun slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna mælast talsvert yfir þeim viðmiðunarlaunum sem sátt náðist um við gerð stöðugleikasáttmálans.
 • Samkvæmt upplýsingum úr launakerfum sveitarfélaganna eru meðaldagvinnulaun slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna kr. 252.000.- á mánuði og meðalheildarlaun þeirra kr. 470.000.- á mánuði.
 • LSS hefur tvisvar sinnum lagt fram formlega kröfugerð í yfirstandandi kjaradeilu. Annars vegar kröfugerð í 35 liðum þann 19. maí sl. og hins vegar aðra útgáfu hennar í 25 liðum þann 11. júlí sl. Sérfræðingar samninganefndar LN mæla kostnaðarauka sveitarfélaganna af kröfugerðinni í tugum prósenta. Forystumenn LSS hafa neitað að kynna kostnaðarmat félagsins á kröfugerðinni fyrir samninganefnd LN.
 • Forystumenn LSS hafa ekki getað skýrt hvers vegna sú þjóðarsátt sem náðist með stöðugleikasáttmálanum og félagið sannarlega er aðili að, eigi ekki lengur við um slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn.
 • Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn er sá hópur starfsmanna sveitarfélaganna sem býr við hvað mest atvinnuöryggi og hefur, vegna mikilvægis starfa þeirra og lögbundinna skyldna, ekki þurft að sæta niðurskurði og sparnaðaraðgerðum í jafn ríkum mæli og margir aðrir starfsmenn sveitarfélaganna.
 • Engin haldbær rök hafa komið fram sem réttlæta sérstakar kjarabætur til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna umfram aðra starfsmenn sveitarfélaga.
 • Það er hlutverk samstarfsnefndar LN og LSS að koma á sáttum í ágreiningsmálum er rísa vegna framkvæmdar kjarasamnings aðila. Á liðnu ári hafa fulltrúar LN unnið með forystumönnum LSS að farsælli lausn fjölmargra ágreiningsmála sem komið hafa inn á borð samstarfsnefndarinnar.
 • Fulltrúar LN lögðu einnig mikla áherslu á að fá forystumenn LSS til samvinnu um endurskoðun þeirra ákvæða kjarasamningsins sem ítrekað valda ágreiningi. Markmiðið var að gera samninginn skýrari, framkvæmd hans skilvirkari og fækka ágreiningsefnum. Stofnaður var sameiginlegur vinnuhópur um verkefnið en forystumenn LSS sýndu verkefninu lítinn áhuga og slitu samstarfinu.
 • Fulltrúar Launanefndar sveitarfélaga hafa átt 24 fundi með forystu LSS síðastliðið ár, þar af 13 undir stjórn ríkissáttasemjara.
 • Aðrir viðsemjendur LN hafa undantekningarlítið virt ákvæði stöðugleikasáttmálans og veitt þar með sveitarfélögunum dýrmætt svigrúm til að  takast á við afleiðingar efnahagshrunsins.

Nánari upplýsingar veitir:

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar LN

Samband íslenskra sveitarfélaga

Sviðsstjóri kjarasviðs
Beint innval: 515 4928 / 772 0305
Netfang:
inga.run.olafsdottir@samband.is