15. apr. 2015

Aukið samstarf í kjaramálum á opinberum vinnumarkaði

Á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga, sem haldinn var í dag, skrifuðu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenska sveitarfélaga, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undir samkomulag um aukið samstarf opinberra vinnuveitenda í kjaramálum.

Samkvæmt samkomulaginu er sett á laggir kjaramálaráð, sem hefur það hlutverk að vera ráðgefandi gagnvart aðilum samkomulagsins og skal það stuðla að samhæfingu við gerð kjarasamninga. Í kjaramálaráði sitja fjórir fulltrúar, einn fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn fulltrúi Reykjavíkurborgar og tveir fulltrúar fjármála- og efnahagsráðherra.

Helstu verkefni kjaramálaráðs eru að:

  1. Greina almennar efnahagsforsendur og gera tillögu um sameiginlega stefnu varðandi svigrúm til launahækkana.
  2. Vera vettvangur upplýsingagjafar og samráðs varðandi almenn samskipti aðila á vinnumarkaði og mál sem varða réttindi opinberra starfsmanna, s.s. lífeyrismál.
  3. Fjalla um meginþætti kjarastefnu aðila og gera tillögu um sameiginlegar áherslur og markmið við kjarasamningsgerðina.
  4. Fylgjast með gangi samningaviðræðna á grundvelli samráðsfunda með formönnum samninganefnda og reglulegrar upplýsingagjafar frá þeim.
  5. Rýna kjarasamninga áður en þeir koma til endanlegrar samþykktar aðila, meta um hvort þeir rúmist innan markaðrar stefnu aðila og veita umsagnir ef tilefni er til.

Einnig er gert ráð fyrir auknu samstarfi samninganefnda aðila samkomulagsins. Settur verður á fót samráðsvettvangur þeirra sem á að vera virkur vettvangur upplýsingamiðlunar sem m.a. vinnur að framgangi sameiginlegra markmiða í kjarasamningum. Gert er ráð fyrir að þetta samráð geti m.a. leitt af sér sameiginleg samningateymi þegar það þykir heppilegt. Einnig verður samstarf aðila aukið á sviði gagnavinnslu vegna vinnu við kjarasamninga.

Samkomulagið er til tveggja ára og litið er á það sem nokkurs konar tilraunaverkefni. Ríki og sveitarfélög hafa haft ákveðið samstarf í kjaramálum undanfarin ár en með samkomulaginu er markmiðið að efla það til muna. Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, sagði að hann bindi miklar vonir við að þessi tilraun til aukins samstarfs í kjaramálum takist vel og myndi festast í sessi til framtíðar. „Mjög mikilvægt er að ríki og sveitarfélög séu samstíga  á sviði kjaramála og aukið samstarf á grundvelli þessa samkomulags verður að skila okkur góðum árangri.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra undirrita samkomulagið.