21. nóv. 2014

Tónlistarkennarar hafna samningstilboði 

Krefjast hærri launa en leik- og grunnskólakennarar

Eftirfarandi bókun var gerð á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga á fundi hennar föstudaginn 21. nóvember 2014 (Jónína Erna Arnardóttir tók ekki þátt í umræðu og afgreiðslu málsins):

„Samninganefnd Félags tónlistarskólakennara hefur hafnað öllum tilboðum samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga um sömu laun og launamyndunarkerfi og samið var um við leik- og grunnskólakennara á þessu ári. Tónlistarskólakennarar krefjast hærri launa en leik- og grunnskólakennarar, eða launahækkana sem nema um 21%, sem er óásættanlegt m.a. vegna þeirra áhrifa sem það myndi hafa á þær kjaraviðræður sem eru í undirbúningi á vinnumarkaði.

Tilboð sveitarfélaganna felur ekki í sér neinar tillögur um breytingar á magni árlegrar vinnuskyldu tónlistarkennara né um að lengja árlegan starfstíma tónlistarskóla.

Tónlistarkennurum hefur verið boðið að bæta við sig liðlega klukkustundar kennslu á viku gegn því að dregið sé úr öðrum störfum á móti. Sú hækkun kennsluskyldu gefur tónlistarkennurum tækifæri til mjög verulegra launahækkana til viðbótar við þá 7,6% launahækkun, sem samið var um við tónlistarkennara innan Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH).  Þessu tilboði, eins og öðrum, hefur Félag tónlistarskólakennara  hafnað.

Sveitarfélögin hafa á þessu ári lokið gerð 68 kjarasamninga við 93 viðsemjendur og er Félag tónlistarskólakennara eina stéttarfélagið sem enn er ósamið við.  Viðræður aðila  fara fram undir verkstjórn ríkissáttasemjara.

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga telur samninganefnd Félags tónlistarskólakennara ekki sýna sanngirni í viðræðunum og þykir miður villandi málflutningur félagsins í fjölmiðlum.  Niðurstaða í samningaviðræðum næst ekki án markvissra viðræðna þar sem sanngirni af beggja hálfu er höfð að leiðarljósi. 

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur lýst sig reiðubúna til frekari viðræðna á þeim grundvelli sem þegar hefur verið lagður.

Stjórn sambandsins lýsir yfir fullum stuðningi við samninganefnd sambandsins.“

Í umræðum kom fram hjá formanni samninganefndar sambandsins að í áherslum nefndarinnar í kjaraviðræðunum hafi Reykjavíkurborg enga sérstöðu og algjör samstaða sé í samninganefndinni í allri hennar vinnu.