28. sep. 2015

Lífleg skoðanaskipti um vinnumat kennara

„Aðalmálið er að leggja áherslu á nám og framfarir nemenda í skólastarfinu og komast út úr mínútutalningu og argaþrasi um smáatriði, sem einkenndi tungutak og hugarfar kjarasamninga fyrri ára. Hugsa frekar um kjarnastarf skólans,“ sagði Karl Frímannsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. Hann var annar tveggja framsögumanna um innleiðingu og áhrif vinnumats grunnskólakennara.

Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, var hinn framsögumaðurinn um sama efni. Hann hóf reyndar mál sitt á því að upplýsa að hann hefði að eigin frumkvæði látið af starfi sem sviðsstjóri tveimur dögum áður og væri nú „ábyrgðarlaus fyrrverandi embættismaður“!

Í máli hans var býsna þung undiralda gagnvart grunnskólakennurum í Reykjavík og Félagi grunnskólakennara vegna andstöðu við kjarasamninginn og „óþolandi óþolinmæði“ í haust vegna stöðu vinnumatsins í upphafi skólaárs.

„Ólgan hefur verið mest í Reykjavík og grunnskólinn er í eignarhaldsstöðu ákveðinna afla sem hamla framförum,“ sagði sviðsstjórinn fyrrverandi. Hann kvaðst engu að síður gera ráð fyrir að vinnumatsumræðu í Reykjavík lyki innan  tíðar „en hvort við náum öllu í gegn, sem við viljum ná fram á þessu skólaári, er önnur saga. Ég er ekki viss um það.“

Skúli Helgason, borgarfulltrúi í Reykjavík, sagði að mikil andstaða hefði verið við samninginn meðal kennara og hvatti til þess að sveitarstjórnarmenn sýndu ferlinu þolinmæði. „Við munum vinna þennan slag en það tekur tíma og samningurinn skilar því þá sem efni standa til.“

„Stóru málin“ týndust í umræðunni

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, kvaddi sér hljóðs og spurði hvar stuðningur pólitísku forystunnar í Reykjavík væri við að „keyra vinnumatið í gegn“? Hann sagði að um það hefði verið samið á vettvangi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að „standa fast að baki skólastjórnenda gagnvart til dæmis málflutningi Félags grunnskólakennara um að samninginn megi túlka svona og svona. Það hefur bara brugðist í Reykjavík. Upplausnin í forystusveitarfélaginu gerir okkur hinum erfitt fyrir.“

Ragnar Þorsteinsson vonaðist til þess að skólastjórum tækist að „höndla það frelsi, sem þeir fengu í markmiði samningsins, að færa samtalið inn í skólana í stað þess að bíða eftir miðlægum skipunum frá samninganefndum.“ Hann sagði að „stóru málin„ í samningnum, sveigjanleiki og samtalið, hefðu týnst í umræðunni „en í staðinn tóku litlu málin yfir, ekki síst gæsla í frímínútum, sem varðar fáeinar mínútur á dag. Þannig birtast líka hlekkir hugarfarsins, menn eru lokaðir inni í mínútutalningu.

Af hverju þessi ólga? Ég held að sumir séu ekki viðbúnir að höndla vald sem framselt er skólastjórnendum og kennarum. Menn eru ekki vanir slíku og verða óöruggir.“

„Óþarflega neikvæð umræða“

Karl Frímannsson, sveitarstjóri og fyrrum grunnskólastjóri í 13 ár, fjallaði í framsöguerindi sínu um fimm markmið kjarasamningsins í heild og ræddi hvert þeirra sérstaklega af sjónarhóli sveitarstjórnarmanns. Hann sagði að vinnumatið væri aðalverkefnið en umræðan hefði verið á óþarflega neikvæðum nótum, meðal annars af hálfu Félags grunnskólakennara. Hér eru rakið efnislega sumt af því sem fram kom í máli hans.

Markmið nr. 1 – leitast við að laga ákvæði kjarasamningsins að breyttum áherslum í skólastarfi

Við heyrum í haust að þeim skólastjórum vegnar betur sem fóru þannig af stað að setja kjarnastarf og stefnu viðkomandi skóla fram í upphafi og segja svo: við viljum nota nýja samninginn til að laga vinnuumhverfið okkar að því sem við stöndum fyrir.

Því miður ríkir ágreiningur of víða um þennan þátt. Stefna hvers skóla ætti að liggja til grundvallar skipulagi skólastarfsins en hefja ekki á ný vegferðina með mínútutalningu, skilgreiningu á vinnutíma og slíku.

Starfshættir skólastjóra hafa mest áhrif á skólastarf en starfshættir kennara eru stærsti einstaki áhrifavaldurinn á nám nemenda. Samvinna stjórnenda og kennara skiptir meginmáli.

Markmið nr. 2 – færa útfærslu faglegs starfs skóla og kennara frá samningsaðilum til fagfólks

Þetta hefur verið svona lengi á pappírnum en kannski hefur útfærslan verið of mikið í höndum stjórnenda og kennara. Fólk í skólanefndum, foreldraráðum, skólaráðum og sveitarstjórnum hefur kannski ekki haft hugrekki eða skort vettvang til að fara inn í skólana og spyrja: Hvað eruð þið að gera? Hvernig gengur? Getum við gert eitthvað til að stuðla að framförum nemenda? Getum við gert eitthvað sameiginlega?

Skólanefndir bera ábyrgð lögum samkvæmt en margar þeirra taka þetta hlutverk ekki inn á sig með því að gera starfsáætlun um hvernig eigi að rækja það.

Við eigum að vera virkir þátttakendur í skólastarfinu, sýna frumkvæði og taka hlutverkið alvarlega. Skólastarf er ekki einkamál skólanna. Við í sveitastjórnargeiranum eigum að taka afstöðu til þess hvernig við ætlum að vinna með skólanum að því að bæta nám nemenda.

Markmið nr. 3 – jafna vinnuálag kennara

Hvatinn að því að taka upp vinnumatsþáttinn var viðleitni til að jafna álag kennara. Það ER misjafnt álag á kennurum og meira á umsjónarkennurum en öðrum. Kennarar þurfa líka mismikinn undirbúningstíma, sumir eru til dæmis með tvö til þrjú ný fög á sama skólaárinu og þurfa aukinn tíma af þeirri ástæðu.

Markmið nr. 4 – móta kennarastarfinu nýja og bætta umgjörð

Þá er ég ekki að tala um málflutning kennara sjálfra um eigið starf. Þar eru þeir oft sjálfum sér verstir. Þeir eru öflug og mikilvæg stétt. Við þurfum að hafa trú á kennurum og því sem þeir gera.

Markmið samninganefndarinnar var að færa vinnutíma kennara til samræmis við aðrar háskólastéttir og það held ég hafi tekist. Það bætir umgjörðina um kennarastarfið að vinna þeirra eigi að fara fram í skólunum og bætir líka umtal um kennarastarfið.

Markmið nr. 5 – bæta launakjör

Launakjörin brenna á okkur í sveitarfélögunum, sem eðlilegt er. Ég tók alla kennara í Eyjafjarðarsveit, sem voru í starfi 1. maí 2014 (grunnlaun án yfirvinnu),  og bar saman við útborguð laun 1. ágúst 2015. Hækkunin er 28%.

Held hins vegar að litið hafi verið svo á við upphaf samninga að kennarar þyrftu verulega launahækkun.

Í vinnumatsþætti kjarasamningsins er fimm sinnum nefnt að kennarar vinni undir verkstjórn skólastjóra. Nefni þetta af því að til eru kennarahópar sem jafnvel hyggjast fá úr því skorið hvort skólastjórar hafi verkstjórnarvald yfir vinnu þeirra.

Við þurfum að standa þétt við bakið á skólastjórum til að ná fram ætluðum breytingum í samræmi við kjarasamninginn, enda vinnum við ekki eftir öðru en samningnum.

Kjarna máls sín dró Karl Frímannsson saman á eftirfarandi hátt í skoðanaskiptum að framsöguerindum loknum:

„Ég þreytist seint á að undirstrika að nýjum kjarasamningi er ætlað að veita aukinn sveigjanleika til skólaþróunar svo hver skóli fái nægjanlegt svigrúm til að vinna að farsæld og eðlilegum framförum hjá nemendum.“