29. sep. 2015

Áskorun að höfða til yngra fólks á vinnumarkaði

„Yngsta fólkið á vinnumarkaði er ekki eins tryggt og trútt vinnustaðnum sínum og fyrri kynslóðir. Það spyr hvað atvinnurekandinn geti gert fyrir sig frekar en hvað það sjálft geti gert fyrir atvinnurekandann.“ Þetta kom fram í erindi Berglindar Guðrúnar Bergþórsdóttur, mannauðsstjóra Hafnarfjarðarkaupstaðar, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga fyrir helgina.

Berglind Guðrún fjallaði um mannauðsstjórnun og áskoranir í starfsmannamálum sveitarfélaga. Hún dró upp einfalda en skýra mynd af fjórum ólíkum kynslóðum á vinnumarkaðinum – í gamanblandinni alvöru. Hver kynslóð er mótuð af tíðaranda síns tíma.

  1. Reynda kynslóðin, fólk fætt á árunum 1922-1943. Hún hverfur brátt af vinnumarkaði vegna aldurs og viðhorf hennar þar með líka. Einkenni reyndu kynslóðarinnar eru mikil vinnusemi, agi og virðing fyrir píramítaskipulagi á vinnustöðum. Séu starfsmenn af þessari kynslóð óánægðir með eitthvað á vinnustaðnum tjá þeir sig síður um það, heldur láta óánægjuna yfir sig ganga athugasemdalaust.
  2. Uppgangskynslóðin ( baby-boomers), fólk fætt á árunum 1943-1960. Fjölmenn kynslóð sem ólst að nokkru upp við að pabbi væri fyrirvinna en mamma heimavinnandi. Metnaðarfullt fólk og sækist eftir umbun fyrir störf sín.
  3. X-Kynslóðin, fólk fætt á tímabilinu 1960-1980. „Lyklabörnin“ sem ólust upp við að báðir foreldrar ynnu úti og þau ólu sig því að miklu leyti upp sjálf! Metnaðarfull kynslóð sem treystir á eigið ágæti, setur sér eigin mörk, vill gjarnan ráða sér sjálf og sækist eftir umbun.  
  4. Kynslóð Y, fólk fætt á árunum 1980-2000. „Velmegunarkynslóðin“, sem setur vinnuna ekki í fyrsta sæti og vill jafnvægi milli starfs og einkalífs. Býr að mikilli þekkingu og menntun, vill „flatt skipulag“ á vinnustaðnum (andstætt píramítavirðingu reyndu kynslóðarinnar!) og spyr: Hvað gerir atvinnurekandinn fyrir mig? En ekki: Hvað get ég gert fyrir atvinnurekandann?

Berglind Guðrún segir að sveitarfélögin þurfi að vera samkeppnishæf um hæfasta fólkið á vinnumarkaði. Þau verði að skapa aðstæður fyrir starfsánægju og ná sérstaklega til yngra fólksins, til dæmis með því að bjóða sveigjanlegt vinnufyrirkomulag:

„Sveitarfélögin eru góðir vinnustaðir, sem sést best á því að starfsaldur þar er hár og margir sækjast eftir lausum störfum. Þá njóta starfsmenn sveitarfélaga jafnan betri réttinda en gengur og gerist á almennum vinnumarkað, til dæmis varðandi lífeyrismál, rétt til launa í veikindum, starfsmannatryggingar og vernd gegn ólögmætum uppsögnum.“