Kallað eftir erindum á Byggðaráðstefnuna 2020

Byggðaráðstefna með yfirskriftinni Menntun án staðsetningar? – framtíð menntunar í byggðum landsins verður haldin dagana 13. og 14. október nk. Ráðstefnan verður haldin í Hótel Kötlu á Höfðabrekku í Mýrdal.

Byggðaráðstefna með yfirskriftinni Menntun án staðsetningar? - framtíð menntunar í byggðum landsins verður haldin dagana 13. og 14. október nk. Ráðstefnan verður haldin í Hótel Kötlu á Höfðabrekku í Mýrdal.

Að ráðstefnunni standa Byggðastofnun, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga, Háskólafélag Suðurlands og Mýrdalshreppur. Tilgangur hennar er að tengja saman fræðilega og hagnýta þekkingu á byggðaþróun með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar um allt land.

Kallað er eftir erindum frá fræða- og háskólasamfélaginu, stefnumótendum og þeim sem vinna á vettvangi þar sem fjallað er um stöðu og þróun byggðar. Erindin geta fjallað um fyrirkomulag, breytingar og skipan skólahalds frá leikskóla til fullorðinsfræðslu og háskóla í víðum skilningi með áherslu á eftirfarandi:

 • Breytingar á skólahaldi í kjölfar Covid-faraldurs, með aukinni fjarkennslu og fjarvinnu
 • Sameining sveitarfélaga – tækifæri í skólastarfi?
 • Verður staðbundinn skóli áfram „hjarta samfélagsins“? – hverjir eru hagsmunir nemenda?
 • Geta ríki og sveitarfélög sameinast um rekstur skóla eða skólastigs?
 • Er þörf á að hugsa gildandi skólaskipan upp á nýtt, jafnvel með nýju skólastigi?
 • Eiga sveitarfélög að reka framhaldsskólastigið?
 • Sameinaður leik-, grunn- og tónlistarskóli og framhaldsskóli
 • Hefur núverandi skólakerfi hagsmuni allra nemenda að leiðarljósi og ef ekki, hvað er til ráða?
 • Hvernig er tekið á menntun fólks af erlendum uppruna?
 • Menntun og starfsþróun kennara og nýliðun á öllum skólastigum
 • Hefur hugtakið „skóli“ fengið nýja merkingu á nýrri öld?
 • Starfsmannavelta í litlum skólum í fámennari byggðarlögum og áhrif á gæði kennslu

Tillaga að fyrirlestri með stuttri innihaldslýsingu, 200-300 orða útdrætti, sendist til Byggðastofnunar á netfangið sigga@byggdastofnun.is eigi síðar en mánudaginn 8. júní 2020. Ráðstefnuhaldarar áskilja sér rétt til að velja og hafna tillögum að erindum.