Undirritað var í dag nýtt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám. Samkomulagið er til ársins 2021 og er ætlað að jafna aðstöðumun til tónlistarnáms á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi, auk þess að festa betur í sessi fjármögnun þessara námsgreina. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri, undirrituðu samkomulagið fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga, en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hálfu ríkisins.
Undirritað var í dag nýtt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám. Samkomulagið er til ársins 2021 og er ætlað að jafna aðstöðumun til tónlistarnáms á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi, auk þess að festa betur í sessi fjármögnun þessara námsgreina.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri, undirrituðu samkomulagið fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga, en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hálfu ríkisins.
Samkomulagið, sem byggir á gildandi samkomulagi frá 2016, snertir 33 viðurkennda tónlistarskóla um land allt, sem um 600 nemendur á framhaldsstigi sækja. Gildistími samkomulagsins er til ársloka 2021. Grunnfjárhæð vegna framlaga ríkisins nema 545 m.kr. á ársgrundvelli og renna þeir fjármunir til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna sem annast úthlutanir framlaganna.
Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til að taka tímabundið yfir verkefni frá ríki sem nema 230 m.kr. á ári og að sjá til þess að framlögin renni til kennslu þeirra nemenda sem innritaðir eru í viðurkennda tónlistarskóla án tillits til búsetu.
Þá hafa aðilar samkomulagsins orðið sammála um að setja á fót samráðsnefnd sem mun vakta framkvæmd samkomulagsins og skila tillögum þegar hún telur þörf á því að bregðast við breytingum á forsendum.
Að sögn Aldísar Hafsteinsdóttir, væntir sambandið þess að með stofnun nefndarinnar verði framkvæmdin markvissari en áður og að þar verði fjallað um mögulega framþróun á samstarfi ríkis og sveitarfélaga um tónlistarnám.
Undirritunin fór fram í nýju húsnæði Söngskólans í Reykjavík að Laufásvegi 49-51.