Ef þróun jafnréttismála innan ríkja ESB heldur áfram á sama hraða og undanfarin ár þá verðum við að bíða í 60 ár eftir því að jafnrétti kynjanna verði að veruleika. Þessa niðurstöðu er að finna í árlegum kynjamælikvarða Jafnréttisstofnunar Evrópu.
Jafnréttisstofnun Evrópu er sjálfstætt starfandi stofnun á vegum ESB. Henni er ætlað að sjá um fræðslu og veita ráðgjöf um jafnréttismál, auk þess að hafa eftirlit með að jafnréttismál séu höfð til hliðsjónar í löggjafarvinnu ESB og við framkvæmd laga í aðildarríkjum ESB.
„Við höfum náð töluverðum árangri undanfarin ár en það gengur of hægt og Covid-19 faraldurinn er gríðarlegt áhyggjuefni hvað varðar áframhaldandi þróun kynjajafnréttis í álfunni“ sagði Charlie Scheele framkvæmdastjóri Jafnréttisstofnunar Evrópu þegar kynjamælikvarði stofnunarinnar var kynntur.
Það má segja að „Við erum öll í þessu saman“ séu einskonar einkunnarorð þegar kemur að aðgerðum til þess að bregðast við Covid-19 veirunni. Það er hins vegar ljóst að afleiðingar hennar snerta okkur mismikið og niðurstöður kannana Jafnréttisstofnunar Evrópu leiða í ljós að það hallar töluvert á konur í þessu tilliti.
Sem dæmi má nefna að starfsmenn innan heilbrigðisgeirans eru í meiri hættu á að smitast af Covid-19 veirunni en aðrar starfsstéttir. Það á við um karla jafnt sem konur, en þar sem heilbrigðisstarfsmenn innan ESB eru að 76% konur þá eru meiri líkur á því að það séu konur sem smitist af veirunni.
Þá er aukning í kynbundnu ofbeldi alvarlegur fylgifiskur þess ástands sem við búum við um þessar mundir. Sem dæmi má nefna að þegar Frakkland skellti í lás í vor þá varð 32% aukning á tilkynningum um heimilisofbeldi á einni viku. Sömu aðstæður í Liháen höfðu í för með sér 20% aukningu á tilkynningum um heimilisofbeldi á þriggja vikna tímabili.
Svipaða sögu er að segja af Íslandi. Í fréttum RÚV þann 21. september var haft eftir Sigríði B. Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra að „í lok ágúst var búið að tilkynna um 800 mál tengd heimilisofbeldi til lögreglu á árinu“. Þá sagði hún enn fremur að „við náttúrulega óttuðumst það í upphafi þessarar veiru að það myndi fjölga málum þar sem væri grunur um heimilisofbeldi. Það hefur alveg reynst eiga við rök að styðjast. Þessum málum hefur fjölgað“.