Innleiðing Heimsmarkmiða stuðlar að markvissari stjórnun

„Það er enginn vafi í mínum huga að innleiðing Kópavogsbæjar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og þau stjórntæki sem þeim fylgja munu gagnast okkur vel og skila sér í mun markvissari stjórnun verkefna bæjarins,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi

 „Það er enginn vafi í mínum huga að innleiðing Kópavogsbæjar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og þau stjórntæki sem þeim fylgja munu gagnast okkur vel og skila sér í mun markvissari stjórnun verkefna bæjarins,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi þegar hann gerði grein fyrir innleiðingu Kópavogs á Heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna á Fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kópavogur verður fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að innleiða þessi markmið með formlegum hætti.

Ármann útskýrði hvernig staðið er að þessari innleiðingu og hvernig þau 36 yfirmarkmið sem unnið verður eftir voru valin og þau tengd fjárhagsáætlun bæjarins. Með árangursmælingum verður síðan hægt að fylgjast með því hvernig innleiðingin skilar sér í rekstri bæjarins. “Þetta er skemmtilegt verkfæri sem mun hjálpa okkur að greina hvort það fjármagn sem varið er til einstakra verkefna er að skila sér með tilætluðum hætti,” sagði Ármann.

Aðspurður um kostnað vegna þessa verkefnis sagði Ármann að það myndi spara bæjarfélaginu fjármuni þegar til lengri tíma væri litið en vissulega fylgdu því einhver útgjöld auk innri kostnaðar að taka það upp.

Hann sagði heimsmarkmiðin vekja fólk til umhugsunar um sjálfbæra þróun og að það væri ánægjulegt að verða þess var að ýmis fyrirtæki og stofnanir væru þegar farin að tileinka sér þessa hugsun en hugmyndafræðin byggði á að allir væru að róa í sömu átt.

Fjármálaráðstefnunni lokið - myndir á Facebook

Fjármálráðstefnunni lauk um hádegið í dag. Þá fór hún fram í fjórum málstofum sem voru teknar upp og munu upptökur birtast á vef ráðstefnunnar eigi síðar en nk. mánudag, 7. október.

Ljósmyndarinn Haraldur Guðjónsson Thors fór mikinn á myndavélinni á fimmtudaginn og hafa allmargar myndir verið birtar á Fésbókarsíðu sambandsins.