Íbúaráð skipað í fyrsta sinn vegna loftslagsmála

Borgarráð Oxford-borgar hefur samþykkt að kalla eftir tillögum að aðgerðum í loftslagsmálum frá íbúum borgarinnar. Tilnefnt verður í íbúaráð með tilviljunarkenndu úrtaki úr lögheimilisskrá borgarinnar og því falið að leggja fram tillögur að markmiðum í kolefnisjöfnun ásamt öðrum nauðsynlegum aðgerðum á vegum borgarinnar í loftslagsmálum.

Borgarráð Oxford-borgar hefur samþykkt að kalla eftir tillögum að aðgerðum í loftslagsmálum frá íbúum borgarinnar. Tilnefnt verður í íbúaráð með tilviljunarkenndu úrtaki úr lögheimilisskrá borgarinnar og því falið að leggja fram tillögur að markmiðum í kolefnisjöfnun ásamt öðrum nauðsynlegum aðgerðum á vegum borgarinnar í loftslagsmálum.

Íbúaráðið tekur til starfa í september nk. Skipan þess var samþykkt einróma í borgarstjórn í janúar sl. og er það fyrsta á Stóra-Bretlandi sem sett er á fót vegna íbúasamráðs í loftslagsmálum. Tillögur íbúaráðsins verða lagðar til grundvallar við gerð aðgerðaráætlunar Oxford-borgar í loftslagsmálum.

Samhliða skipan íbúaráðsins samþykkti borgarstjórn einnig fjárhagsáætlun fyrir aðkeypta ráðgjafarþjónustu á vegum þess, s.s. vegna þess umtalsverða niðurskurðar sem stefnt er að í veigamiklum málaflokkum á borð við samgöngur og húshitun.

Í bókun sinni um málið lýsti borgarstjórnin jafnframt yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála, m.a. í ljósi þess að breska loftslagsráðið (Committee on Climate Change, CCC) hefur beint því til þarlendra stjórnvalda að herða enn frekar á aðgerðum vegna kolefnislosunar.

Af öðrum aðgerðum í loftslagsmálum má nefna að borgin er aðili að Low Carbon Oxford, netverki 40 opinbera aðila og einkaaðila, sem stefnir að því að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í sveitarfélaginu dragist saman um 40% árið 2020 miðað við árið 2005.

Þá tilkynnti borgarstjórnin fyrir skömmu, að 80 milljónum punda verði varið í loftslagstengd verkefni, þ.á.m. snjalltækni sem ætlað er að greiða fyrir orkuskiptum ásamt einni stærstu hleðslustöð í heimi fyrir rafdrifna bíla. Strætisvagnar borgarinnar verða jafnframt uppfærðir m.v. Euro 6 staðalinn og fyrstu hreinorkuleigubílanna (e. zero emission) er einnig að vænta á stræti Oxford-borgar innan skamms.

Aðgerðir borgarinnar í loftslagsmálum njóta víðtæks stuðnings innan Oxford og hafa háskólar borgarinnar ekki síður lagt sitt af mörkum til málaflokksins. Grænvika Oxford eða Oxford Green Week er á meðal margra og mismunandi samstarfsverkefna sem unnið er nú að og verður henni hrundið af stað í fyrsta sinn dagana 8. til 16. júní nk.

Af aðgerðum annarra breskra borga í loftslagsmálum má nefna, að stefnt er að kolefnishlutleysi í Manchester-borg fyrir árið 2038.

Ljósmyndin er tekin af bloggsíðu Oxfordháskóla