Í leit að samstarfsaðilum erlendis?

Utanríkisráðuneytið kynnir til sögunnar nýjan gagnagrunn fyrir möguleg samstarfsverkefni í tengslum við Uppbyggingarsjóð EES. Markmiðið er að skapa tækifæri og vettvang fyrir íslenska aðila sem hafa áhuga á samstarfsverkefnum í Evrópu.

Gagnagrunninn á vef utanríkisráðuneytisins.

Vinna við uppbyggingu gagnagrunnsins fer nú fram og stefnt er að því að í honum verði að finna verkefni og samstarfsaðila í tengslum við menningar-, nýsköpunar-, orku- og rannsóknaverkefni, eða á hverju því sviði sem áætlanir Uppbyggingarsjóðsins og áherslur Íslands taka mið af. Gagnagrunnurinn er á ensku þar sem hann miðlar upplýsingum til aðila í viðtökuríkjunum sem hafa áhuga á að hefja samstarf með íslenskum aðilum.

Auðveld leit í gagnagrunni

Í gagnagrunninum verður hægt að leita og flokka eftir ýmsum breytum, tegund aðila, flokkum, undirflokkum og hægt að leita í texta. Við skráningu í gagnagrunninn er einnig hægt að bæta við tegund aðila, flokkum og undirflokkum, allt eftir því sem þörf er á og aðstoðar áhugasama samstarfsaðila við að finna upplýsingar og mögulega samstarfsaðila.

Uppbyggingarsjóður EES var stofnaður í þeim tilgangi að vinna gegn efnahags- og félagslegum mismun í þeim ríkjum sem aðstoðina þiggja. Heildarupphæð sem varið verður til styrkja á árunum 2014 - 2021 er 1,5 milljarður evra. Nánari upplýsingar er að finna á vef utanríkisráðuneytisins.

Skráið ykkur til leiks

Sveitarfélög sem hafa áhuga á að bætast við lista mögulegra samstarfsaðila og setja upplýsingar um sveitarfélagið og verkefnahugmyndir í gagnagrunninn eru hvött til að fylla út þetta skráningarform.

Tengiliðir

Ef þið hafið einhverjar spurningar eða vangaveltur, hugmyndir eða góð ráð, ekki hika við að hafa samband við Óttar Frey Gíslason, ottarfreyr@samband.is eða Þórhöllu Rein Aðalgeirsdóttur sem heldur utan um gagnagrunninn fyrir hönd utanríkisráðuneytisins, thorhalla@mfa.is.

Við viljum einnig nýta tækifærið til að láta ykkur vita að utanríkisráðuneytið sendir reglulega út upplýsingar til íslenskra samstarfsaðila um köll og ný sóknartækifæri í viðtökuríkjunum. Ef þið viljið láta bæta ykkur á póstlistann hafið þá samband við Lilju Jónsdóttur liljaj@mfa.is.