Hvatt til þverpólitískrar sáttar um Hálendisþjóðgarð

Á fundi stjórnar sambandsins, sem haldinn var 29. janúar sl., var m.a. lögð fram til kynningar umsögn sambandsins um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð. Umsögn sambandsins byggði m.a. á þeim umræðum sem fram fóru á þremur umræðufundum sem haldnir voru um málið með umhverfis- og auðlindaráðherra og sveitarstjórnarmönnum.

Mynd: John Thomas á Unsplash

Í umsögn sambandsins var skýrt tekið fram að fyrirvari væri á umsögninni sökum þess að stjórn sambandsins hefði ekki fjallað um hana. Á fundi stjórnarinnar 29. janúar voru lagðar fram tvær bókanir vegna umsagnarinnar, annars vegar frá Bjarna Jónssyni, sveitarstjórnarfulltrúa í Sveitarfélaginu Skagafirði, og hins vegar frá Kristjáni Þór Magnússyni, Norðurþingi, Guðmundi Ara Sigurjónssyni, Seltjarnarnesi og borgarfulltrúunum Heiðu Björgu Hilmisdóttur og Dóru Björt Guðjónsdóttur.

Í báðum bókunum er lögð áhersla á að breið sátt náist um lagafrumvarpið innan sveitarstjórnarstigsins og hvatt til þess að þverpólitísk samstaða náist um málið. „Þannig fæst góður upptaktur í farsælt samstarf stjórnvalda og sveitarfélaganna um hálendisþjóðgarð þegar af honum verður.“

Bókun Bjarna Jónssonar:

„Sveitarfélögin í landinu hafa almennt staðið sig vel og lagt mikla áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, náttúruvernd og varðveislu hefðbundinna landnytja, ekki síst á hálendinu og mikilvægi þess að nærsamfélagið sé þar í lykilhlutverki. Miðhálendisþjóðgarður sem er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stuðlar að náttúruvernd á einstöku svæði sem geymir fágætt lífríki, vistgerðir og sérstæðar jarðmyndanir. Þjóðgarðurinn skapar störf bæði í þjónustu og landvörslu sem brýnt er tryggja að verði í heimabyggð. Mikilvægt er að unnið verði náið með heimamönnum í öllu ferlinu og hagsmuna heimafólks og sérstaklega bænda gætt í hvívetna. Þannig fæst góður upptaktur í farsælt samstarf stjórnvalda og sveitarfélaganna um hálendisþjóðgarð þegar af honum verður.“

Bókun Bjarna Jónssonar.

Bókun Kristjáns Þórs, Guðmundar Ara, Heiðu Bjargar og Dóru Bjartar:

„Undirrituð geta ekki að öllu leyti tekið undir umsögn sambandsins eins og hún er lögð fram. Það felast ýmis tækifæri í formun hálendisþjóðgarðs en við teljum það lykilatriði að breið sátt ríki um lagafrumvarpið á sveitarstjórnarstiginu þegar endanlegt frumvarp um málið verður lagt fram til samþykktar á alþingi. Undirrituð hvetja til þess að í meðförum þingsins verði leitað allra leiða til að ná þverpólitískri samstöðu um málið eins og starfshópur um miðhálendisþjóðgarð lagði upp með í skýrslu sinni. Málið sem slíkt er tímabært og ávinningur af því að skýra og samræma áralagið við stjórnun, verndun og sjálfbæra nýtingu á miðhálendi Íslands.“

Bókun Kristjáns Þórs, Guðmundar Ara, Heiðu Bjargar og Dóru Bjartar.

Eftir fundinn upplýsti Bjarni Jónsson stjórnarmenn um að hann væri samþykkur þessari bókun.

Þessum bókunum hefur verið komið á framfæri við umhverfis- og samgöngunefnd með beiðni um að þær verði teknar til umfjöllunar samhliða umsögn sambandsins frá 25. janúar 2021 við vinnslu og  meðferð nefndarinnar á frumvarpi til laga um Hálendisþjóðgarð.