Hvatningarverðlaun veitt á degi gegn einelti

Dagurinn 8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu.

Dagurinn 8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu.

Í þjóðarsáttmála sem undirritaður var þann 8. nóvember 2011 segir: „Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er“. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands undirritaði á sínum tíma þennan sáttmála.

Föstudaginn 8. nóvember sl., veitti Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Vöndu Sigurgeirsdóttur hvatningarverðlaun dags gegn einelti við hátíðlega athöfn í Vatnsendaskóla í Kópavogi. Vanda hefur allan sinn starfsferil starfað með börnum og fullorðnum að eineltis- og samskiptamálum og er þekkt fyrir vinnu sína bæði hér heima og á erlendum vettvangi. Forvarnir gegn einelti eru hennar hjartans mál og hefur hún skrifað greinar og bókarkafla, stundað rannsóknir og staðið fyrir fræðslu bæði fyrir börn og fullorðna um einelti og jákvæð samskipti.

Vanda-Sigurgeirsdottir-hlaut-vidurkenningu-a-degi-gegn-eineltiKópavogsbær

Grunnskólarnir í Kópavogi hafa undanfarin sjö ár efnt til vináttugöngu en markmiðið með slíkri göngu er að stuðla að jákvæðum samskiptum, vekja athygli á mikilvægi vináttu og virðingar og benda á að einelti verður ekki liðið. Gangan eflir samstöðu og vináttu barna og hefur þannig haft jákvæð áhrif á skólastarf í bænum. Með göngunni leggur Kópavogsbær sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn einelti.

GegnEineltiKopavogur

Einelti

Á Vísindavefnum er einelti skilgreint sem ofbeldi þar sem einn eða fleiri ráðast að einum og beita hann ofbeldi yfir lengri tíma. Í reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað frá árinu 2011 segir:

Einelti er endurtekin ámælisverð háttsemi af hálfu eins eða fleiri saman, þ.e. hegðun, athöfn eða athafnaleysi, sem er til þess fallin að meiða, niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna, ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Þetta á m.a. við um skilaboð eða aðrar upplýsingar sem miðlað er í síma eða með rafrænum hætti. Hér er þó almennt ekki átt við samskipti eða skoðanaskipti milli jafninga.