Hvaða gjaldskrár þarf að birta í b-deild stjórnartíðinda?

Og þurfa þær staðfestingu ráðuneytis?

Sveitarfélög setja sér á ári hverju fjölda gjaldskráa vegna þjónustugjalda sem þau innheimta hjá íbúum og fyrirtækjum. Afar mikilvægt er að allar gjaldskrár séu settar samkvæmt þeim lagaramma sem settur er um viðkomandi gjöld. Mismunandi getur verið með hvaða hætti eigi að leggja gjöld á, bæði með tilliti til þess hvaða gjaldaliði er heimilt að innheimta, hvort gjaldið skuli standa undir öllum kostnaði við veitingu viðkomandi þjónustu eða hvort heimilt sé að gjöld standi eingöngu undir hluta kostnaðar. Þá er auk þess misjafnt hvort skylda sé til staðar hjá sveitarfélagi til þess að birta gjaldskrá í b-deild stjórnartíðinda eða hvort gjaldskrá þurfi staðfestingu ráðherra viðkomandi málaflokks. Misbrestur á því að fara að fyrirmælum laga um setningu gjaldskráa getur valdið því að álagning þeirra sé óheimil og er til nokkur fjöldi úrskurða ráðuneyta, álita umboðsmanns Alþingis og dómafordæma þar sem álagning sveitarfélaga er metin óheimil þar sem ekki er farið að fyrirmælum laga.

Af þessu tilefni hefur lögfræði- og velferðarsvið sambandsins tekið saman yfirlit yfir helstu gerðir gjaldskráa sem sveitarfélögum ber, eða þau hafa heimild til að setja lögum samkvæmt, sem finna má á vefsíðu sambandins. Þá hefur sviðið jafnframt útbúið minnisblað um álagningu þjónustugjalda sem nýtast á sem vegvísir fyrir starfsfólk sveitarfélaga þegar leggja skal á þjónustugjöld. Auk þess er að finna þar neðangreindan gátlista sem sveitarfélög ættu að fara í gegnum þegar tekin er ákvörðun um álagningu þjónustugjalds:

  1. Lagaheimild
  2. Hver er grundvöllur gjaldtöku?
  3. Greining á kostnaðarliðum
  4. Hvaða gjaldaliði er heimilt að taka með þegar útreikningur þjónustugjalds er framkvæmdur?
  5. Kostnaðarútreikningur
  6. Hvernig er kostnaðarútreikningur framkvæmdur? Er hægt að reikna út alla kostnaðarliði eða þarf að áætla kostnað vegna einhverra þeirra?
  7. Gildistaka
  8. Á að gera ráð fyrir aðlögunartíma? Gildistaka verði t.d. ekki þegar við birtingu heldur eftir einhvern tíma?
  9. Staðfesting
  10. Mæla lög fyrir um staðfestingu ráðherra áður en gjaldskrá vegna þjónustugjalds er birt?
  11. Birting - Kynning
  12. Með hvaða hætti ber að standa að kynningu nýrra gjaldskráa (umfram það sem hugsanlega er mælt fyrir um í lögum)? Skal birta þær í Stjórnartíðindum.
  13. Viðbrögð við kvörtunum
  14. Hvernig á að bregðast við kvörtunum? Þarf að ákveða ferli fyrir slíkt?
  15. Ferli við endurskoðun
  16. Verklag ef upp kemur ábending um endurskoðun gjaldskrár.
  17. Endurgreiðsla ofgreiddra gjalda
  18. Hvernig á að standa að endurgreiðslu ef íbúar hafa ofgreitt þjónustugjöld?

Vonast er til að þessi umfjöllun gagnist sveitarfélögum þegar teknar eru ákvarðanir um álagningu þjónustugjalda. Vakni spurningar við lestur minnisblaðsins má beina fyrirspurnum til lögfræði- og velferðarsviðs sambandsins.  

Nánari upplýsingar veitir Flosi Hrafn Sigurðsson í gegnum netfangið flosi.hrafn.sigurdsson@samband.is.