Hugmyndir og ábendingar að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf

Samband íslenskra sveitarfélaga beinir því til sveitarfélaga að hrinda í framkvæmd eins og kostur er eftirfarandi hugmyndum og ábendingum að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum.

Samband íslenskra sveitarfélaga beinir því til sveitarfélaga að hrinda í framkvæmd eins og kostur er eftirfarandi hugmyndum og ábendingum að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum. Sambandið hvetur ríkisstjórn og Alþingi að gera viðeigandi ráðstafanir svo þær verði að veruleika. Stjórn sambandsins mun áfram fylgjast vel með áhrifum þessa samdráttar og móta frekari tillögur að viðbrögðum sveitarfélaga eftir því málum vindur fram.

I. Fasteignagjöld og gjaldskrár

 1. Sveitarfélög kanni möguleika á að fresta a.m.k. tveimur gjalddögum fasteignagjalda, með sams konar hætti og ríkið kann að bjóða fyrirtækjum að fresta gjalddögum staðgreiðslu og tryggingargjalds, hjá einkafyrirtækjum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna áhrifa COVID-19. Sveitarfélög setji sér reglur um þau viðmið sem koma til greina við veitingu slíkra fresta. Horft verði til þeirra skilgreininga sem ríkið mun beita við slíkar ákvarðanir.
 2. Unnið verði að mótun frekari tillagna á næstu tveimur mánuðum um hvernig koma megi til móts við fyrirtæki sem fjallað er um í staflið a.
 3. Við ákvörðun álagningarhlutfalls fasteignaskatts í flokkum A og C árið 2021 verði horft til þess að skattar hækki í takt við áætlaðar verðlagsbreytingar milli ára en ekki hækkun fasteignamats.
 4. Sveitarfélög kanni möguleika á lækkun gjaldskrár og tímabundinnar lækkunar eða niðurfellingar tiltekinna gjalda. Þessum stuðningi verði fyrst og fremst beint að einstaklingum og fjölskyldum sem verða fyrir atvinnumissi og í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun.
 5. Á árinu 2021 verði haldið aftur af gjaldskrárhækkunum sem kostur er.

II. Framkvæmdir

 1. Viðhaldsframkvæmdir sveitarsjóða og B-hluta fyrirtækja verði auknar og þeim flýtt eins og kostur er, umfram það sem er í gildandi fjárhagsáætlunum ársins 2020 og í áætlunum fyrir árið 2021 .
 2. Tekin verði upp endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna viðhaldsframkvæmda sveitarfélaga.
 3. Ráðist verði í fráveituframkvæmdir eins fljótt og kostur er, enda fái sveitarfélög stuðning frá ríkinu sem nemur ígildi virðisaukaskatts vegna framkvæmdanna.
 4. Flýtt verði stofnframkvæmdum á vegum sveitarsjóða og B-hluta fyrirtækja.
 5. Aukinn verði stuðningur Framkvæmdasjóðs aldraðra við viðhaldsframkvæmdir og stofnkostnað við hjúkrunarheimili. Stuðningi skal forgangsraða til verkefna sem eru full hönnuð og hæf til framkvæmda með litlum fyrirvara.
 6. Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði nýttur í auknum mæli, ásamt stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga, til uppbyggingar á húsnæði fyrir fatlað fólk og til að bæta aðgengi fatlaðra að mannvirkjum og útvistarsvæðum.
 7. Tilraunaverkefnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um stuðning til að örva byggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni verði hrint í framkvæmd sem allra fyrst í samvinnu við þau sveitarfélög sem í hlut eiga.

III. Atvinnuátaksverkefni og vinnumarkaður

 1. Sveitarfélög skilgreini og bjóði allt að 1.000 störf í atvinnuátaksverkefnum í samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð.
 2. Þess verði sérstaklega gætt að ný störf henti konum og fólki af erlendum uppruna.
 3. Í þeim tilgangi að auka atvinnumöguleika fólks af erlendum uppruna í atvinnuleit á Íslandi verði ráðist í veglegt átak í íslenskunámi fyrir viðkomandi og veiti sveitarfélög og ríki sérstakan fjárstuðning til þeirra sem námið sækja.
 4. Beina skal styrkjum úr nýsköpunarsjóðum til einyrkja og til kvennastarfa.
 5. Það er sveitarfélögum kappsmál að standa vörð um störf á þeirra vegum þrátt fyrir horfur um versnandi fjárhagsstöðu á næstu misserum.

IV. Markaðsátak í ferðaþjónustu

 1. Landshlutasamtök sveitarfélaga verði hvött til að breyta áherslum við mótun sóknaráætlana fyrir næstu ár þannig að aukinn þungi beinist að ferðaþjónustutengdum verkefnum og átaki til kynningar á ferðaþjónustu í heimabyggð.
 2. Sveitarfélög, stofnanir, sjóðir og fyrirtæki auki mótframlög sín í sóknaráætlunarverkefni er lúta að eflingu ferðaþjónustu.

V. Laga- og reglugerðarbreytingar og skattheimta

 1. Lögum verði breytt svo sveitarfélögum verði heimilt að fresta gjalddögum fasteignagjalda.
 2. Ákvæði sveitarstjórnarlaga um fjármálareglur sveitarfélaga verði rýmkuð með því að jafnvægisreglu og skuldareglu verði tímabundið vikið til hliðar.
 3. Viðmiðunarfjárhæðir laga um opinber innkaup um útboðsskyldu sveitarfélaga verði rýmkaðar tímabundið.
 4. Áhættuvog sveitarfélaga í áhættugrunni lánastofnana verði lækkuð úr 20% í 0%. Þessari aðgerð er ætlað að skila betri vaxtakjörum fyrir sveitarfélög og bæta möguleika Lánasjóðs sveitarfélaga að veita stærri sveitarfélögum aukin lán.
 5. Sett verði lög um stuðning ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga.
 6. Sett verði lög um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhaldsframkvæmda sveitarfélaga.
 7. Engir nýir skattar og gjöld verði lögð á opinbera þjónustu sveitarfélaga, s.s. urðunarskattur.