Horfur á vinnumarkaði

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í dag fjallaði Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar um stöðuna á íslenskum vinnumarkaði eins og hún horfir við starfsfólki vinnumálastofnunar og fór yfir skiptingu þeirra sem eru atvinnuleitendur í dag eftir kyni búsetu og fleiru.

Þá greindi hún frá helstu vinnumarkaðsúrræðum sem stjórnvöld hafa falið Vinnumálastofnun að koma á laggirnar.

Upptökur og erindi frá báðum dögum ráðstefnunnar.

Unnur sagði að samdráttur á vinnumarkaði hafi verið hafin fyrir ári meðal annars í ferðaþjónustu. Reyndar þóttu horfurnar svo slæmar í ársbyrjun að Vinnumálastofnun óskaði eftir fundi með ráðherra þar sem honum voru tjáðar áhyggjur stofnunarinnar af ástandinu um leið og óskað var eftir stuðningi og meira fjármagni til að setja á fót átak og vinnumarkaðsúrræði á þessu ári. Ráðherra tók vel í það og því var undirbúningur hafinn þegar COVID faraldurinn dundi yfir.

Um 12% atvinnuleysi í lok árs

Unnur sagði að það sem af er ári hafi tölur um atvinnuleysi farið stöðugt hækkandi úr 4,8% í ársbyrjun upp í 9,7% í september og nú sé því spáð að atvinnuleysið verði 11,8% í lok ársins. Fjöldi atvinnulausra um áramót gæti verið nálægt 25 þúsund manns þegar taldir eru með þeir sem eru í minnkuðu starfshlutfalli. „Staðan er erfið erfið og horfurnar fyrir komandi vetur eru því miður mjög dökkar,“ sagði Unnur og bætti því við að auk alkuls í ferðaþjónustu ríkti mikil óvissa í öðrum greinum eins og þeim sem tengjast þjónustu og samkomuhaldi, skemmtistöðum og verslunarrekstri svo fáeinar séu nefndar.

Mest atvinnuleysi á Suðurnesjum

Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið skera sig úr hvað varðar fjölda atvinnulausra.  Í september var atvinnuleysi 17,7% á Suðurnesjum, 9% á höfuðborgarsvæðinu, 7,4% á Suðurlandi, 6,2% á Norðurland eystra, 5,6% á Vesturlandi, 4,2% á Austurlandi, 3,6% á Vestfjörðum og 3,2 % á Norðurlandi vestra.

Unnur sagði að eðli málsins samkvæmt væri atvinnuleysið mest á þeim svæðum þar sem ferðaþjónustan var mest en það er á Suðvesturhorninu, Suðurland og Norðurlandi eystra. Höggið er hins vegar langmest á Suðurnesjunum og alþjóðaflugstöðin þar sem allt iðaði af lífi fyrir nokkrum mánuðum stendur nú tóm.

Konur í meirihluta

Þegar nánar er rýnt í tölurnar kemur í ljós að konur eru í meirihluta meðal atvinnulausra á flestum stöðum. Enn skera Suðurnesin sig úr þar sem 19,85 atvinnulausra eru konur en í öðrum landshlutum er skipting milli kynja nokkuð jöfn, þótt halli á konurnar.  Langflestir hinna atvinnulausu koma úr ferðaþjónustunni eða um 7000 manns og svo koma hefðbundnar atvinnugreinar eins og iðnaður, landbúnaður og sjávarútvegur þar sem fyrir var nokkurt atvinnuleysi áður en áhrif COVID bættust við.

40% atvinnulausra erlendir ríkisborgarar

Unnur sagði atvinnuleysi erlendra ríkisborgara mikið vandamál. Í uppsveiflu síðustu ára hafi mikill fjöldi fólks verið sóttur til annarra landa til að aðstoða við uppbyggingu í ferða- og byggingaiðnaði en þetta séu þær greinar sem hafi orðið verst úti núna. Erlendir ríkisborgarar á landinu eru nú 50 þúsund og af þeim eru um 38 þúsund á vinnumarkaði. Atvinnuleysi í þessum hópi er gríðarlegt eða 23,1% og verst er ástandið hjá Pólverjum sem eru fjölmennastir þar sem það er tæplega 30%.  Sagði Unnur að í raun væru um 40% þeirra sem hafa misst vinnuna hér á landi erlendir ríkisborgarar.

Unnur sagði það gríðarlega áskorun að koma til móts við þennan stóra hóp með vinnumiðlun og vinnumarkaðsúrræði og að það hljóti að verða samvinnuverkefni fjölmargra aðila. Ljóst sé að störfum muni ekki fjölga mikið á næstu mánuðum og því þurfi að leita annarra leiða til að aðstoða fólk sem misst hefur vinnuna.

Ýmsar tillögur og úrræði

Unnur sagði að á vormánuðum hafi verið skipaður samhæfingarhópur á vegum félagsmála- og menntamálaráðherra til að greina og leggja mat á stöðuna. Hópurinn skilaði skýrslu með áfangaskiptum tillögum sem Vinnumálastofnun hefur unnið eftir síðan í vor. Þar er að finna áfangaskiptar tillögur um ýmis verkefni sem hefur að hluta til hefur þegar verið hrint í framkvæmd og önnur sem eru enn í vinnslu.

„Við höfum aldrei séð viðlíka fjölda missa vinnu á jafn stuttum tíma og aldrei séð jafn fjölbreyttan hóp fólks í þessari stöðu og nú,“ sagði Unnur sem sagðist binda vonir við að þegar þessu ljúki muni við spyrna okkur hratt og örugglega frá botninum og ná vopnum okkar á vinnumarkaðinum á nýjan leik.